Aðgangur almennra fjárfesta hér á landi að greiningu á og innsýn þeirra í fjármálamarkaðinn er af skornum skammti og hagsmunagæsla í skötulíki. Fagfjárfestar og aðrir sérfræðingar eru oft mun „nær“ upplýsingum og orðrómum sem kunna að veita mikilvæga yfirsýn þótt þær teljist ekki til innherjaupplýsinga.

Eins og greint hefur verið frá hefur almennum fjárfestum á hlutabréfamarkaði fjölgað verulega síðastliðin ár. Yfir níu þúsund áskriftir bárust í vel heppnað hlutafjárútboð Icelandair haustið 2020, og Íslandsbanki bætti um betur með 24 þúsund hluthafa í frumútboði við skráningu bankans á markað síðasta sumar. Á fjórða tug þúsunda eiga nú hlutabréf sem skráð eru í Kauphöllina, en talan náði ekki 10 þúsund fyrir tveimur árum.

Segja má að almenningur sé loks farinn að sýna hlutabréfum áhuga að ráði frá fjármákakreppunni er margir brenndu sig á slíkum viðskiptum og traust til slíkra fjárfestinga féll.

Markaðurinn hefur því síðastliðinn rúman áratug fyrst og fremst samanstaðið af fagfjárfestum og einstaka fjársterkum aðilum. Sú staðreynd hefur að einhverju leyti mótað það hvernig staðið er að upplýsingagjöf og fræðslu, að mati viðmælenda Viðskiptablaðsins á fjármálamarkaði.

Vangaveltur, orðrómar og stór viðskipti
Á meðan almenningur hefur lítinn sem engan aðgang að almennum greiningum og ráðgjöf á fjármálamarkaði hafa flestir fagfjárfestar og sérfræðingar aðgang að slíku, ýmist innanhúss eða aðkeypt, auk þess að hafa eðli máls samkvæmt betri forsendur til að leggja mat á stöðuna sjálfir. Í ofanálag getur tengslanet innan fjármálakerfisins haft sína kosti.

Einn viðmælandi blaðsins segir að þótt hann viti ekki til þess, og telji það ólíklegt að hreinar og klárar innherjaupplýsingar gangi manna á milli, skiptist fólk innan fjármálageirans gjarnan á vangaveltum um líklega þróun mála hjá hinum ýmsu félögum, og stundum fari af stað orðrómar. „Rosalega mikið af þessu eru bara vangaveltur um hvað er framundan, hvað er raunhæft, hvar eru tækifærin hjá viðkomandi félagi og svo framvegis.“

Ýmsar upplýsingar geti haft áhrif á skoðun markaðsaðila á tiltekinni fjárfestingu án þess að teljast innherjaupplýsingar, segir hann og tekur dæmi af sölu Stoða á um 2% hlut í Kviku banka fyrir um 3,5 milljarða króna á tveggja vikna tímabili í nóvember, en Stoðir voru fyrir söluna stærsti einstaki hluthafi Kviku. Þrátt fyrir umfang viðskiptanna fór félagið ekki undir flöggunarmörk og var því ekki skylt að tilkynna opinberlega um viðskiptin.

„Það fer svo kannski að spyrjast út meðal einhvers mengis fagfjárfesta, án þess að almenningur fái af því veður. Það eru engin lög brotin, né er nokkuð vafasamt í gangi, en það vill bara þannig til að það er litið það mikið upp til Stoða að þegar þeir selja stóran hlut í Kviku þá verða menn litlir í sér.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .