Stefanía K. Karlsdóttir, einn eigandi Íslenskrar matorku ehf., segir matvælaframleiðslu til útflutnings geta komið landinu úr kreppu.

Stefanía K. Karlsdóttir segir gott aðgengi að aðföngum og stöðugleika í framleiðslu gefa Íslendingum yfirburði í matavælaframleiðslu. „Ísland er ríkt land, ekki bara af vatnsföllum og háhitasvæðum til virkjunar, heldur er óvíða í heiminum eins mikið af köldu neysluvatni og volgu/heitu vatni til að nýta til framleiðsu á matvælum. Einnig eigum við endurnýjanlega orku, nægt land og gífurlega góða þekkingu og reynslu í meðhöndlun og útflutningi matvæla. Við hjá Íslenskri matorku höfum síðasta eitt og hálft ár unnið markvisst m.a. að því að bera saman framleiðsluaðstæður á Íslandi og erlendis og eftir allar ferðir okkar til margra Evrópulanda og Asíu er ég sannfærð um að Ísland situr á gullkistu fyrir matvælaframleiðslu. Fegurðin við Ísland samanborið við lönd sem við höfum skoðað er stöðugleiki  framleiðslu. Við getum notað heita vatnið til að vera með sama hitastig í framleiðslu allt árið um kring, en t.d. í Asíu og annars staðar í Evrópu eru miklar sveiflur milli sumars og veturs. Það á við alla framleiðslu að eftir því sem þú ert með meiri stöðugleika þá nærðu meiri hagkvæmni, betri og jafnari gæðum og jafnara afhendingaröryggi."

Auk góðs aðgengis að aðföngum er fleira sem ýtir undir matvælaframleiðslu að sögn Stefaníu. „Staðreyndin í dag er að matvælaverð hefur farið ört hækkandi og spár eru um matvælaskort í heiminum í framtíðinni. Margar skemmtilegar birtingarmyndir hafa verið settar fram í þessu samhengi og ein er þessi: Á jörðinni búa um 6,9 milljarðar og þessi fjöldi býr á þessari einu jörð. Ef allt þetta fólk myndi tileinka sér matarvenjur Evrópu- og Ameríkubúa þarf allt að 21 jörð til að framleiða mat ofan í heimsbyggðina alla. Það er einnig staðreynd að velmegun eykst t.d. í Asíu þar sem fólk á mannmörgum svæðum er að flytja í þéttbýli og er farið að tileinka sér vestræna menningu t.d. í mat. Þessi þróun er komin á fullt skrið og sjást þess merki á mörkuðum fyrir matvæli. Fyrirsjáanleg aukin eftirspurn verður eftir prótínum og omega 3 fitusýrum,"

Ítarlegra viðtal við Stefaníu má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak undir liðnum tölublöð hér að ofan.