Samkomulag um Icesave-málið á að ræða á Alþingi áður en það verður undirritað fyrir hönd þjóðarinnar, segir Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks. Utanríkismálanefnd þingsins fundaði um málið í morgun.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í dag hafa ríkisstjórnarflokkarnir samþykkt að íslenska ríkið ábyrgist greiðslu upp að 20.887 evrum til eigenda erlendra innistæðureikninga í íslenskum bönkum.

Siv er fulltrúi Framsóknarflokksins í utanríkismálanefnd. Á fundinum í morgun lét hún bóka að það væri grundvallaratriði að samkomulagið færi til umfjöllunar á Alþingi áður en það yrði undirritað fyrir hönd þjóðarinnar.

"Þar sem um afar stórt hagsmunamál fyrir þjóðina er að ræða þarf þingið að fá kynningu á samkomulaginu og fjalla um það," segir í bókuninni.