Siv Friðleifsdóttir, oddviti framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, sagði á opnum borgarafundi Ríkisútvarpsins í kvöld að hún teldi koma til greina að fjárframlög  til Framsóknarflokksins á árinu 2006, sem færu yfir ákveðna upphæð, verði gerði opinber.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk styrki frá FL Group og Landsbankanum árið 2006 að upphæð samtals 55 milljónir króna. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hefur lýst því yfir að hann hyggist skila þeim peningum til baka. Sömuleiðis hyggst hann opinbera styrki til flokksins á árinu 2006 sem fara yfir milljón.

Framsókn svarar ekki

Forsvarsmenn Samfylkingarinnar og Vg hafa lýst því yfir í fjölmiðlum í dag, meðal annars á vb.is, að þeir hafi ekki tekið á móti viðlíka styrkjum og nú hefur verið upplýst að sjálfstæðismenn hafi þegið.

Viðskiptablaðið hefur ítrekað reynt að ná tali af framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins í dag, Sigfúsi Inga Sigfússyni, til að inna hann eftir því hvort Framsóknarflokkurinn hafi þegið viðlíka styrki.

Hann hefur ekki svarað skilaboðum blaðsins.