Sigmundur Guðmundsson, skiptastjóri þrotabús Hópferðabíla Akureyrar, segir ekki hafa verið um offjárfestingu eða stórt einstakt áfall að ræða hjá félaginu. Verkefnastaðan hafi einfaldlega versnað þar til félagið gat ekki staðið undir skuldbindingum sínum.

Eignir búsins voru fyrst og fremst hópbifreiðar, sem misjafnlega gekk að koma í verð, að sögn Sigmundar. „Það var þarna þónokkuð af bílum á misjöfnum aldri. Sumir voru í eigu fjármögnunarfyrirtækja en aðrir í eigu félagsins. Það tók nokkurn tíma að koma þessu öllu út, en það hafðist að lokum,“ segir hann, en áhugi hafi verið lítill og verðið sem fékkst eftir því.

Alls námu lýstar kröfur í búið 511 milljónum króna, en upp í þær greiddust 25 milljónir eða um 5%. Meðal þeirra voru launakröfur vegna uppsagnarfrests, og kröfur frá Íslandsbanka og Arion banka, sem fór fram á gjaldþrotaskiptin.