Bandaríski afþreyingarkeðjan Six Flags, sem er þekktust fyrir að reka stóra og vinsæla rússíbanagarða, hefur farið fram á að greiðslustöðvun að ósk kröfuhafa.

Six Flags rekur 20 rússíbana- og leiktækjagarða víðs vegar um Bandaríkin, Kanada og Mexíkó en síðustu 18 mánuði hefur mikið hallað undir fæti í rekstri keðjunnar vegna mikilla skulda og nema skuldir félagsins, sem er með höfuðstöðvar í New York, um 1,8 milljörðum dala.

Mark Shapiro, forstjóri Six Flags sagði núverandi stjórnendur félagsins hafa tekið við þungum rekstri en fyrir tæpum tveimur árum síðan var skipt um eigendur að félaginu sem þá skuldaði um 2,4 milljarða dala. Helst mátti rekja miklar skuldir félagsins til byggingu nýrra garða og hraðrar stækkunar og endurnýjun tækja. Shapiro segir að skuldarhalinn hafi einfaldlega reynst of þungur þó rekstur garðanna gangi sæmilega.

Shapiro sagði að erfitt hefði reynst að endurfjármagna keðjuna og eins og ástandið sé nú á fjármálamörkuðum muni það að öllum líkindum reynast ómögulegt.

„Það kemur því í hlut kröfuhafanna að móta fyrirtækið fyrir framtíðina,“ sagði Shapiro í samtali við fjölmiðla vestanhafs. Hann sagði Six Flags vera gott dæmi um félag sem væri vel rekið en farið hefði verið of hratt í stækkanir og félagið skuldsett of mikið. Hann varpaði allri ábyrgð á fyrri eigendur.

Daglegur rekstur garðanna heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist fyrst um sinn en það mun síðan koma í ljós hvað gerist á meðan félagið er í greiðslustöðvun.