Nýsköpunarfyrirtækið Controlant hefur aflað sér 500 milljónir króna í nýtt hlutafé til að standa undir vexti fyrirtækisins á alþjóðlegum mörkuðum. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að tvöfalda veltuna í ár. Á næstu tveimur árum er stefnt að því að sexfalda veltuna.

Controlant þróar svokallaðar skýjalausnir og vélbúnað sem hjálpar fyrirtækjum að minnka sóun og koma í veg fyrir skemmdir á viðkvæmum vörum – lyfjum og matvælum – í allri virðiskeðjunni, hvort sem er í geymslu eða flutningi. Fyrirtækið framleiðir lítil mælitæki sem mæla meðal annars hita- og rakastig og vakta staðsetningu í rauntíma. Tækin senda upplýsingar þráðlaust í miðlægan gagnagrunn, þar sem þau eru geymd. Með gagnagrunninum má síðan greina leiðir til að bæta gæðastjórnun, draga úr sóun og lækka vörustjórnunarkostnað. Tekjur Controlant eru einkum í formi áskriftartekna af þjónustusamningum.

Efla markaðs- og sölustarfið

Hið nýja fjármagn, sem Controlant hefur fengið á undanförnum sex mánuðum, kemur frá innlendum fjárfestum, einkum vel stæðum einstaklingum og fjölskyldum. Þar með breikkar hluthafahópur félagsins, sem samanstendur einnig af Frumtaki, englafjárfestum og starfsmönnum og stofnendum. Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, segir að nýja fjármagnið muni einkum nýtast til að fjölga starfsfólki.

„Við erum í mikilli útrás og höfum landað samningum við stór, alþjóðleg fyrirtæki í Bandaríkjunum og Evrópu sem starfa í lyfjageiranum og matvælaiðnaðinum. Á grundvelli þessara samninga sjáum við fram á að rúmlega tvöfalda veltuna í ár, úr 200 milljónum króna í 400 til 500 milljónir. Það líða nokkrir mánuðir frá því að við löndum samningi við viðskiptavin og þar til lausnin er að fullu innleidd og fer að skila okkur tekjum. Til að standa undir veltuaukningunni erum við að fjölga starfsfólki og byggja innviðina okkar. Það sem af er ári hefur starfsmannafjöldinn hjá okkur farið úr 27 í 34 en við stefnum að því að vera 50 til 60 manna vinnustaður í lok árs,“ segir Guðmundur. Hann bætir því við að á þessu ári og á næsta ári muni yfir 90% af tekjum Controlant koma að utan.

Guðmundur segir fyrirtækið sérstaklega horfa til þess að efla sölu- og markaðsstarfsemina.

„Það hefur lengi verið þannig að Íslendingar eru mjög góðir í að þróa vörur en ekki eins góðir í að markaðssetja og selja þær á erlendum mörkuðum. Við ákváðum að vanmeta það ekki og erum því sérstaklega að byggja upp sölu- og markaðsstarfsemina hjá okkur. Við erum til dæmis komin með nýja heimasíðu, nýtt lógó og vörumerki. Það er strax farið að skila sér.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .