Eftir að El Salvador tók einhliða upp aðra mynt, þá keyptu alþjóðlegir bankar upp innlenda banka.

Þannig fékk El Salvador óbeint Seðlabanka Bandaríkjanna sem lánveitanda til þrautavara.

Þetta kemur fram í grein Ársæls Valfells, lektors við Háskóla Íslands, og Hreiðars Más Guðjónssonar, framkvæmdastjóra hjá Novator.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Síðastliðna helgina rituðu þeir grein í Fréttablaðið og mæltu fyrir einhliða upptöku evru. Í kjölfarið kom sú gagnrýni, að nauðsynlegt sé að taka upp evru með samþykki Evrópusambandsins, svo Seðlabankinn geti verið íslenskum fjármálastofnunum lánveitandi til þrautavara.

Ársæll og Hreiðar Már eru fygljandi því að lánadrottnar fái hlutafé í íslensku bönkunum.

„Stærstu kröfuhafar í þrotabú gömlu bankanna eru alþjóðlegar fjármálastofnanir. Aðkoma þeirra yrði þannig tryggð að nýju kerfi. Með yfirtöku sterkra alþjóðlegra banka á innlendum fjármálastofnunum yrði fjárstreymi til landsins tryggt og í gegnum þá eigendur fæst óbeint lánveitandi til þrautavara,“ segir í greininni.