Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri hátæknifyrirtækisins Völku, segir að fjórða iðnbyltingin sé honum ofarlega í huga hvað varðar tækifærin í fiskvinnslu. Valka sérhæfir sig í hönnun og sölu á heildstæðri kerfislausn fyrir fiskiðnaðinn og stefnir að því að tvöfalda veltuna í ár.

„Við sjáum fram á að vélmenni og sjálfvirkni muni halda áfram að bæta ferla í fiskvinnslu. Það eru til dæmis mikil tækifæri í að auðvelda og bæta ákvarðanatöku með fjárfestingum í gervigreind. Svo höfum við verið að kanna þau tækifæri sem blasa við í annarri matvælavinnslu. En það er ákveðinn kostur að vera með sérhæfingu og fókus í fiskinum, þar sem áfram er hægt að bæta gæði, rekjanleika, viðskipti, sölumál og annað með nýrri tækni,“ segir Helgi.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og framtakssjóðurinn Frumtak seldu nýverið 37% hlut sinn í Völku og ávöxtuðu pund sitt vel. Helgi segir fjárfestingu sjóðanna hafa skipt sköpum fyrir vöxt fyrirtækisins. Samhliða sölunni var hlutafjáraukning í félaginu upp á 300 milljónir króna, en eignir þess nema um 900 milljónum.

Helgi segir að kaupendurnir og þeir sem tóku þátt í hlutafjáraukningunni hafi sumir þegar verið í hluthafahópi félagsins og að einnig hafi komið inn nýir fjárfestar. Þeirra á meðal sé Vortindur, félag á hans vegum, Fossar í eigu Sigurbjörns Þorkelssonar, Vogabakki í eigu Árna Haukssonar og Friðriks Hallbjörns Karlssonar, Vindhamar, félag á vegum Kára Guðjóns Hallgrímssonar auk núverandi og fyrrverandi starfsmanna. Þá á Helgi sjálfur beinan hlut.

Valka opnaði í gær nýjar höfuðstöðvar við Vesturvör 29 í Kópavogi. Helgi segir húsnæð­ið vera tæplega 3.000 fermetrar og þrefalt stærra en fyrri höfuð­stöðvar félagsins. Hið nýja fjármagn fyrirtækisins nýtist meðal annars í að koma sér fyrir á nýja staðnum, en einnig mun það nýtast í uppbyggingu á framleiðslu og sölu.

Rekstrarumhverfið ágætt

Áskoranirnar fyrir Völku eru í grundvallaratriðum þær sömu og hjá tæknifyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi.

„Að flestu leyti er rekstrarumhverfið gott, en það sem gerir okkur erfitt er sterk króna og hátt vaxtastig. Okkur hefur gengið ágætlega að fá tæknimenntað fólk til starfa, en það gæti orðið erfiðara þegar fram í sækir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .