Skýrsluhöfundar að nýrri skýrslu GAMMA Capital Management um ferðaþjónustuna telja Austurland, Vestfirði, Snæfellsnes, Norðurland vestra og Eyjafjörð enn eiga talsvert inni hvað varðar fjölgun ferðamanna.

Vöxtur ferðaþjónustunnar er sagður byggja meðal annars á auknu sætaframboði flugfélaga og stækkun leiðakerfis. Þá hafi eldgosið í Eyjafjallajökli, tökur stórmynda og sjónvarpsþátta á landinu, samstillt markaðsátak stjórnvalda og ferðaþjónustufyrirtækja að ógleymdu sívaxandi hlutverki samfélagsmiðla, átt stóran þátt í auknum vinsældum Íslands sem ferðamannastaðar.

Forsenda sjálfbærs vaxtar í greininni er sögð áframhaldandi hagræðing og stóraukin fjárfesting í innviðum, en þar geti erlendir fjárfestar lagt hönd á plóg.