Eignaumsjón hefur bryddað upp á ýmsum nýjungum upp á síðkastið, en fyrirtækið er umsvifamesta fyrirtæki landsins í þjónustu við rekstur húsfélaga og atvinnuhúsnæðis með um 70% markaðshlutdeild. Eignaumsjón annast rekstur um 400 húsfélaga, rekstrarfélaga og atvinnuhúsnæðis og eru tæplega 10 þúsund eignir í þjónustu hjá fyrirtækinu.

Frá árinu 2001 hefur Eignaumsjón veitt þjónustu á borð við umsjón á fjármálum, fundahöldum og ákvarðanatöku slíkra félaga, ráðgjöf við rekstur þeirra og útvegun á þjónustu og verktökum. Einnig hefur fyrirtækið veitt umsjón fyrir rekstur leigufélaga og leiguhúsnæðis.

Meðal þess sem nú hefur bæst við þjónustuframboð Eignaumsjónar er húsumsjón, þjónustusíður og nýtt þjónustusvið fyrir atvinnuhúsnæði. Markmiðið er að gera rekstur fasteigna markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði og auðvelda störf eigenda og hússtjórna.

Húsvörður í hlutastarfi

Það nýjasta sem Eignaumsjón býður upp á fyrir eigendur fjöleignarhúsa er eftirlit og umsjón með sameign, búnaði húsa og kerfum.

„Í staðinn fyrir að vera með húsvörð í fullu starfi útvegum við nú þjónustu húsvarðar í hlutastarfi,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar. „Hann heimsækir reglulega þær húseignir sem tryggt hafa þessa þjónustu og fer yfir ástand og búnað, svo sem aðgangskerfi, lyftur, hitakerfi, sorphirðumál, brunavarnir, raf- og pípulagnir og snjóbræðslukerfi, og gerir nauðsynlegar úrbætur þar sem á við.

Einnig hefur hann eftirlit með daglegri umhirðu og ástandi sameignarinnar, bæði innanhúss sem utan, ásamt því að annast verkstjórn og eftirlit með þjónustuaðilum sem við útvegum, til dæmis í ræstingum. Þarna erum við að mæta auknum kröfum um reglubundið og faglegt eftirlit með fasteignum, ekki síst meðal opinberra aðila. Þetta sparar húsfélögum og rekstrarfélögum fjármuni, til dæmis með því að fækka útköllum iðnaðarmanna og annarra þjónustuaðila.“

Sérstakt svið fyrir atvinnulífið

Húsumsjón Eignaumsjónar heyrir undir nýlega stofnað fasteignasvið félagsins, sem einbeitir sér að þjónustu við atvinnuhúsnæði. Eigendur stærri eigna í atvinnurekstri hafa í auknum mæli nýtt sér þjónustu Eignaumsjónar og var sviðið stofnað til að mæta þeirri þörf.

„Þar erum við að stíga inn sem eins konar framkvæmdastjórar eða verkefnastjórar. Verkefnin tengjast ýmist daglegu utanumhaldi, fjármálum, eftirfylgni og hagsmunagæslu viðkomandi rekstraraðila,“ segir Daníel, en meðal viðskiptavina í þessum hópi eru fasteignir á borð við Glæsibæ, Norðurturninn í Kópavogi og Mjóddin.

Bæta upplýsingagjöf með húsbókinni

Þá er Eignaumsjón að útfæra nýja aðgangsstýrða þjónustusíðu – húsbók fjölbýlishúsa – á vef sínum í samvinnu við stjórnir húsfélaga. Þar eru teknar saman hagnýtar upplýsingar fyrir íbúa viðkomandi fjölbýlishúss.

„Húsbókin eykur upplýsingagjöf til íbúa þeirra húsfélaga sem eru í viðskiptum við okkur. Með því að skrá sig í gagnagrunninn okkar geta þeir nálgast til að mynda allar samþykktir sem snúa að rekstri húsfélagsins, fundargerðir, húsreglur, áætlanir, helstu þjónustuaðila, greiðsluseðla og kröfusögu, tryggingar, ársreikninga og húsgjöld. Einnig er starfsemi húsumsjónar skráð í húsbókina. Þá geta stjórnarmenn séð daglega fjárhagsstöðu síns húsfélags, stöðu bankareikninga, útistandandi kröfur og stöðu innheimtukafna,“ segir Daníel.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .