Samkvæmt nýjum lögum um hlutabætur geta einstaklingar fengið atvinnuleysisbætur hafi starfshlutfall þeirra verið skert tímabundið vegna stöðunnar í efnahagsmálum. Hægt er að lækka starfshlutfall fólks í 80% til 25%. Markmiðið er að fá vinnuveitendur til að minnka frekar við starfshlutfall fólks en að segja því upp. Úrræðið gildir til 1. júní en kann að vera endurskoðað í vor. KPMG og VR eru meðal þeirra sem birt hafa reiknivél sem útskýra hvaða áhrif hlutabætur hafa á hvern og einn.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði á blaðamannafundi Almannavarna í dag, að einstaklingar muni á næstu dögum geta sótt um hlutabætur á vef Vinnumálastofnunar. Fyrirtæki muni einnig þurfa að skrá sig inn og staðfesta tímabundið breytt starfshlutfall. Hún sagði líklegt að talsverður fjöldi myndi nýta sér úrræðið þó óvíst væri hve margir.

Breytingarnar hafa í för með sér að þeir sem hafa laun upp að 400 þúsund krónur á mánuði miðað við fullt starfa halda óbreyttum launum. Mest getur samanlögð greiðsla numið 700 þúsund á mánuði eða 90% af launum fólks sé fjárhæðin yfir 400 þúsund krónum á mánuði.

KPMG útskýrir breytingarnar í þremur liðum:

  1. Einstaklingur sem sækir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta. Sá réttur tæki til þeirrar fjárhæðar sem næmi hlutfallslegum mismun réttar launamannsins hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram. Þau skilyrði sem eru fyrir hendi eru að fyrra starfshlutfallið hafi verið lækkað hlutfallslega um að minnsta kosti 20% og að launamaðurinn haldi 25% starfshlutfalli hið minnsta.
  2. Þá geta greiðslur frá vinnuveitanda og greiðslu atvinnuleysisbóta samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns.
  3. Skal ekki koma til skerðingar samkvæmt því sem hér að framan segir ef meðaltal heildarlauna launamanns eru undir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf. Ef meðaltal heildarlauna launamanns er yfir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf má skerðing heldur aldrei verða til þess að samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta skv. ákvæðinu nemi samanlagt lægri fjárhæð en 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf.

Hægt er að kynna sér hvernig hlutabætur koma út fyrir hvern og einn í reiknivélum VR og KPMG með því að smella á tenglana.