Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, hefur ekki stórar áhyggjur af áhrifunum sem kunna að verða ef annað af stóru flugfélögunum tveimur lendir í greiðslufalli. Hins vegar sé ljóst að slíkt gæti haft í för með sér tímabundinn skell sem hefði áhrif um allt hagkerfið.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá gæti gjaldþrot annars af stóru íslensku flugfélögunum  kostað vel á annað hundrað milljarða í tapaðar útflutningstekjur og dregið verulega úr hagvexti hér á landi. Um fjórir af hverjum fimm farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll ferðast með  Wow  air  og  Icelandair.

Harpa segir að Íslendingar hafi sjaldan verið jafn vel undirbúnir fyrir áföll á borð við það sem dregið var upp í álagsprófi Seðlabankans síðasta haust.  „Bæði eru bankarnir miklu betur staddir þannig að þeir geta tekið við meira tapi án þess að fara á hausinn og það sama gildir eiginlega um heimili og fyrirtæki. Við höfum ekki verið svona lítið skuldsett síðustu 20 árin og það hefur verið mikil kaupmáttaraukning,“ segir hún en bætir þó við að ef samdráttur yrði í ferðaþjónustu myndi það óneitanlega hafa áhrif á stöðu hagkerfisins.

„Það mun hafa áhrif ef ferðaþjónustan snýst hratt til baka, sama hver ástæðan er. Þar spila flugfélögin auðvitað stóra rullu en að sama skapi er það alltaf þannig að ef eftirspurnin er til staðar frá ferðamönnum og það er hægt að reka flugleiðina með hagnaði að þá mun einhver annar grípa boltann,“ segir Harpa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .