Kortavelta útlendinga í maímánuði var mikil hér á landi og jókst um 47% milli ára. Kortavelta þeirra hér á landi nam 13,3 milljörðum króna í mánuðinum, sem er ríflega 4,2 milljörðum króna hærri fjárhæð en í maí í fyrra. Þessi aukning milli ára er sú mesta síðan í nóvember 2012. Þessu greinir Íslandsbanki frá.

Þetta er jafnframt talsvert umfram þann vöxt sem varð á brottförum útlendinga í mánuðinum, en alls fóru 91 þús. útlendingar frá landinu um Keflavíkurflugvöll (KEF) í maí sl. sem er 36,4% fleiri en á sama tíma í fyrra.

Kortavelta Íslendinga í útlöndum (vegna ferðalaga og netviðskipta) nam alls 8,9 milljörðum króna í maí sl., og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga hér á landi að frádreginni veltu Íslendinga erlendis) þar með jákvæður um 4,4 ma. kr. í mánuðinum. Er hér um að ræða lang hagstæðustu útkomu á kortaveltujöfnuði í maímánuði frá upphafi. Á sama tíma fyrra var hann jákvæður um 1,2 ma. kr. og ári áður um 0,3 ma. kr., sem jafnframt var í fyrsta sinn sem kortavelta Íslendinga í útlöndum var umfram kortaveltu útlendinga  hér á landi í maímánuði.

Frá áramótum talið nemur kortavelta útlendinga hér á landi 47,7 mö. kr., en Íslendinga í útlöndum 37,8 mö. kr. Hefur kortavelta útlendinga aukist um 41% í krónum talið á milli ára en Íslendinga aukist um tæp 16% á sama tímabili. Er kortaveltujöfnuður þar með hagstæður um 9,9 ma. kr. á þessu tímabili samanborið við 1,2 ma. kr. á sama tíma í fyrra, en fyrir þann tíma var jöfnuðurinn ávallt í halla á fyrstu 5 mánuðum ársins.

Lítill vöxtur í kortatölum í maí

Lítilsháttar bakslag varð í vöxt kortaveltu íslenskra heimila í maímánuði eftir myndarlegan vöxt á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Líklegt er þó að vöxturinn taki aftur við sér, enda er hann studdur vaxandi ráðstöfunartekjum heimilanna næsta kastið.

Kortavelta einstaklinga jókst um 1,7% í maí sl. frá sama tíma í fyrra að raunvirði (m.v. VNV án húsnæðis) samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans um greiðslukortaveltu. Þetta er mun minni vöxtur en verið hefur síðasta árið, sér í lagi í veltu innanlands sem stóð nánast í stað á milli ára. Að raungildi jókst kortavelta einstaklinga erlendis um 14,0% á milli ára, sem jafnframt er heldur hægari vöxtur en verið hefur að jafnaði síðasta árið. Sé tekið mið af fyrstu fimm mánuðum ársins nemur raunvöxtur í kortaveltu einstaklinga 4,2% frá sama tímabili í fyrra, þar af 2,9% innanlands en 15,0% erlendis.