Eins og flestir vita losna kjarasamningar á almennum vinnumarkaði um áramótin. Óhætt er að segja að töluverð harka hafi verið í umræðu um kjaramál á síðustu mánuðum og misserum og endurspeglast það meðal annars í kröfum, sem bæði Starfsgreinasamband Íslands og VR birtu í október. Félögin gera meðal annars kröfu um að lægstu laun hækki úr um 270 þúsund krónum á mánuði í 425 þúsund og að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að lægstu laun verði skattfrjáls.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fjallaði um stöðuna á vinnumarkaði í stefnuræðu sinni sem forsætisráðherra í september í fyrra. Þar viðraði hann meðal annars áhyggjur sínar af íslenska vinnumarkaðs- módelinu.

„Ég tók býsna djúpt í árinni í þessari ræðu fyrir rúmu ári síðan,“ segir Bjarni í viðtali í bók Frjálsrar verslunar, 300 stærstu, sem kom út fyrir skömmu. „Ég hélt því fram að þetta módel væri ónýtt vegna þess að það gengur ekki út frá því að það sé forsenda að góðri niðurstöðu að menn hafi fyrst komið sér saman um hvaða svigrúm sé til launahækkana. Í flestum þeim löndum, sem ná árangri í að tryggja jafnan vöxt kaupmáttar við litla verðbólgu, er þetta grunnforsenda. Að fyrir liggi hvert svigrúmið sé og kjaraviðræður snúist um skiptingu þess svigrúms. Þá er ekki verið að ræða um alls óskylda hluti eða að setja fram kröfur sem rúmast alls ekki innan efnahagslegs svigrúms.“

Útúrsnúningar

„Umræðan í dag er sú sama og fyrir ári síðan, engar samræður hafa verið um svigrúmið sem fyrir hendi er og þar af leiðandi er enginn byrjunarflötur. Ég hef sjaldan séð þetta jafn skýrt. Þegar rætt er um að kostnaðarmeta kröfur er því svarað með útúrsnúningi um að ekki sé hægt að éta kostnaðarmat. Hér er ég eingöngu að ræða um bein áhrif en við höfum í gegnum tíðina látið hjá líða að ræða um óbein áhrif samninga. Fyrir hið opinbera skipta skuldbindingar ríkisins í lífeyriskerfinu langmestu. Allt of oft hefur verið gengið frá samningum án þess að nokkur viðleitni sé til að meta framtíðarskuldbindingar sem af þeim leiða. Það er reikningur sem við sendum á næstu kynslóðir – framtíðarskattgreiðendur þessa lands. Um þessar mundir vantar tæplega 700 milljarða upp á að lagt hafi verið til hliðar fyrir þeim lífeyrisloforðum sem voru gefin á sínum tíma í LSR B-deildinni.“

Óraunhæfar kröfur í skattamálum

Varðandi kröfur um breytingar á skattkerfinu segir Bjarni sjálfsagt að ræða slíkt.

„En það samtal þarf að vera í einhverju samhengi við það svigrúm sem er til staðar. Mér sýnist forsvarsmenn ákveðinna stéttarfélaga vera með hugmyndir sem eru langt, langt fram úr öllu sem getur talist raunhæft.

Fyrir ári síðan birti ASÍ skýrslu um þróun skattbyrði í landinu, þar sem fram kom að á undanförnum árum hefði skattbyrði flestra vaxið og samkvæmt skýrslunni átti það ekki síst við um þá sem eru neðarlega í tekjustiganum. Þessi skýrsla dró upp ákveðna mynd en gaf ekki rétta mynd af heildarstöðunni. Þar af leiðandi svaraði hún ekki mikilvægum spurningum á borð við þróun kaupmáttar. Hvort viltu frekar vera með minna á milli handanna og lægri skattbyrði eða meira í vasanum í lok mánaðar og borga eitthvað hærra hlutfall til ríkisins? Grunnspurningin á alltaf að vera: Hvernig hefur fólk það?

Skattbyrði hefur aukist. Það er vegna þess að laun hafa hækkað verulega og við höfum ekki haft persónuafslátt sem fylgir launum. En fólk hefur meira á milli handanna, meiri kaupmátt. Það felur í sér lífskjarasókn. Enginn vill gömlu launin og lægri skattbyrðina. Menn vilja nýju launin og gömlu skattbyrðina. En málið er ekki svo einfalt. Spyrja má hvort staðgreiðslukerfið eins og það var mótað í upphafi hafi verið sjálfbært og sanngjarnt. Rúmlega helmingur greiddi engan tekjuskatt fyrir 1990. Augljóst var að það gat ekki gengið til lengdar. Nú taka fleiri þátt í staðgreiðslunni en allir hafa meira á milli handanna. Það er góð þróun að mínu áliti.“

Sanngjarnt skattkerfi

„Í þessu sambandi má velta því upp hvort það sé sjálfsagt að ríkið byggi upp skattkerfi sem gerir ráð fyrir því að atvinnurekendur greiði svo lág laun að þau þoli enga skattlagningu? Hvort viljum að það séu fleiri eða færri sem standi að baki staðgreiðslukerfinu, einu öflugasta tekjuöflunarkerfi ríksins? Umræða af þessu tagi mætti komast á dagskrá.

Það hefur lengi verið minn málflutningur að ríkið ætti að taka minna af vinnandi fólki. En ég tel sanngjarnasta skattkerfið vera byggt þannig að sem flestir taki þátt, þeir borgi minnst sem hafa minnst og þeir borgi mest sem hafa mest í tekjur. Umræða um hátekjuskatt finnst mér á ákveðnum villigötum. Við höfum hátekjuskatt. Hann byrjar í 893.713 kr. Laun yfir því marki bera viðbótar 9,3% tekjuskatt – sem þýðir að staðgreiðslan verður 46,24%, ef við gerum ráð fyrir meðalútsvari.

Það þarf ekki annað en að skoða kaupmáttinn til að sjá að kjör allra hafa verið að lagast. Miðað við kaupmáttaraukningu síðustu ára þá eru vonbrigði að ekki sé meiri sátt á vinnumarkaði. Hér hefur kaupmáttur aukist um 24 til 25 prósent á síðustu þremur til fjórum árum og það er, í öllu sögulegu samhengi, algjört afrek. Við öll, almenningur, launþegahreyfingin, atvinnurekendur og stjórnvöld, eigum sameiginlega að vera gríðarlega ánægð og stolt af þessum árangri. Það er aftur á móti eins og margir telji að þetta hafi verið sjálfsagt. Sumir segja heppni. Aðrir segja að þetta sé ekki nóg. Af minni hálfu væri óábyrgt annað en að benda á að hugmyndir um að þetta endurtaki sig á næstu 3-4 árum eru algerlega óraunhæfar og stríða gegn öllum lögmálum efnahagsmála.“

Hægt að vinna með stöðuna

Ríkisstjórnin hefur síðan um síðustu áramót reglulega fundað með aðilum vinnumarkaðarins í Ráðherrabústaðnum.

„Það er rétt stefna að halda þessa fundi og bjóða upp á samtalið. Við þurfum að ræða saman. Og þrátt fyrir að mörgum finnist mjög langt á milli tel ég að vel sé hægt að vinna með þá stöðu sem er uppi og finna lausnir. Hvort sem mönnum líst illa á blikuna eða ekki þá er ekkert annað í boði.“

Á vormánuðum 2015, síðast þegar samningar á almennum markaði voru lausir, var samið um 30% launahækkun. Þrátt fyrir varnaðarorð greiningaraðila, Seðlabankans og fleiri, gengu þeir samningar upp. Var það fyrst og síðast því að þakka að allir ytri þættir voru þjóðinni einstaklega hagfelldir. Ferðaþjónustan fór á flug með tilheyrandi innflæði gjaldeyris, krónan styrktist, olíuverð lækkaði og svo mætti áfram telja. Launakröfurnar, sem nú hafa litið dagsins ljós, eru enn meiri en árið 2015. Bjarni segir að þegar hagsaga Íslendinga sé skoðuð hafi miklar launahækkanir alltaf endað í verðbólgu, sem hafi étið upp kaupmáttáraukninguna. Í hagsögulegu samhengi hafi samningarnir árið 2015 því verið undantekning.

„Takist mönnum að knýja fram niðurstöðu í samræmi við þessa fyrstu kröfugerð sem hefur birst þá eru afleiðingarnar að mínu áliti mjög fyrirséðar,“ segir Bjarni. „Hækki laun langt umfram framleiðniaukningu fáum við verðbólgu, hærra vaxtastig og rýrnun kaupmáttar. Og við vitum líka hvað gerist í beinu framhaldi af slíku. Stórir hópar munu kenna gjaldmiðlinum um allt saman, krefjast endurskoðunar á vísitölum eða breytinga á verðtryggingu, bölva Seðlabankanum og sparka í krónuna. Og þá hefst sú umræða enn á ný. Sem aldrei er um kjarna máls.“

Sammála því að hækka lægstu laun

„Á jákvæðari nótum vil ég taka fram að það sem ég heyri mjög skýrt er að það sé sanngjarnt og réttlætismál að þeir sem séu á lægstu laununum hækki. Því er ég sammála. Það þarf bara að gerast í réttum skrefum og í jafnvægi. Þeir sem eru neðst í launastiganum þurfa að hafa það betra. Hins vegar er launajöfnuður á Íslandi nú þegar einhver sá mesti sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Það er því ekki við öðru að búast en hækkun lægstu launa muni leita upp launastigann. Hér er nærtækt að vísa í slagorð BHM – metum menntun til launa. Þegar öllu er á botninn hvolft munu laun í landinu með einum eða öðrum hætti endurspegla þá verðmætasköpun sem er að eiga sér stað í hagkerfinu. Ég sakna þess því að í samtali vinnumarkaðsaðila sé ekki meira fjallað um grundvallaratriði eins og hvernig hægt sé að auka framleiðni og verðmætasköpun því það mun skila sér í hærri launum.“

Nánar má lesa um málið í bókinni 300 stærstu sem Frjáls verslun var að gefa út. Hægt er að kaupa bókina hér .