Velta Krónunnar hefur aukist verulega á síðustu árum. Veltuaukning Krónunnar nam alls 20,8% á síðasta ári og 15,3% á fyrri helmingi þessa árs. Spurð út í þennan árangur segir Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Krónunnar, að bæði hafi markaðshlutdeild matvöruverslunarinnar aukist en einnig sé ljóst að smásala almennt hafi vaxið í heiminum, m.a. vegna áhrifa Covid.

Matarinnkaup sem hlutfall af útgjöldum hafi þó minnkað og því sé í auknum mæli lögð áhersla á gæði og uppruna vara. Krónan haldi þó fast í fyrirheit sín um að koma réttu vöruúrvali í hendur neytenda á eins ódýran hátt og mögulegt er.

„Við í Krónunni viljum gera heilbrigðan og sjálfbæran lífsstíl að daglegum venjum allra og vinnum að þróun lýðheilsustefnu fyrir fyrirtækið. Í verslununum er lögð sérstök áhersla á ferskmeti, ávexti og grænmeti og að viðskiptavinir okkar séu upplýstir um innihald og uppruna varanna. Kröfur viðskiptavina eru að aukast um úrval vara en á rétta verðinu og við elskum að finna leiðir til að mæta þeim. Áhersla á umhverfismál er orðin samofin öllu okkar starfi og vinnum við stöðugt að því að bæta okkur í endurvinnslu, endurnýtingu og minnkun matarsóunar. Stærsti viðskiptavinahópur okkar er á aldrinum 25-55 ára og virkt samtal sem við eigum við þann hóp mótar mjög okkar áherslur,“ segir Ásta.

„Með vel staðsettum og rúmgóðum verslunum ásamt breiðu vöruúrvali á hagstæðu verði, sjáum við markaðsstöðu okkar styrkjast nú sem aldrei fyrr.“

Krónan rekur í dag 24 verslanir, flestar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. Ásta segir að verið sé að horfa til þess að opna verslanir í öðrum landshlutum og nefnir þar nýja verslun á Akureyri sem verður opnuð haustið 2022. Einnig muni ný og stærri verslun opna á nýjum stað í Skeifunni, sem tekur við af þeirri sem þar er í dag. Þá er verið að prófa snjallverslun fyrir landsbyggðina með sama vöruúrvali og sama verði og býðst í verslunum á höfuðborgarsvæðinu.

Stóraukin netverslun með matvöru

Vöxtur smásölu í heiminum frá því að heimsfaraldurinn hófst hefur verið gríðarlegur enda breyttust innkaup, kauphegðun og þarfir viðskiptavina á örskotsstundu.

„Nýjustu tölur frá McKinsey sýna þó að mesti vöxturinn sé í netverslun með matvöru sem hafi vaxið að meðaltali um 54% í Evrópu á síðasta ári,“ segir Ásta.

Sjá einnig: Tæknin að bylta dagvörumarkaði

Viðhorf neytenda eru einnig að breytast. Samkvæmt McKinsey leita 37% neytenda í Evrópu eftir að spara meira en áður í daglegum innkaupum, 30% ætla að verja meiru í heilsusamlegan mat á árinu og 19% meiru í umhverfisvænni vörur.

„Samspil tækni og þjónustu mun skera úr um hverjir ná að skara fram úr á markaðinum; allt frá framenda í þjónustulausnum til sjálfvirknivæðingar í vöruhúsum.“

Viðtalið við Ástu má finna í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .