Afkoma Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. versnaði á síðasta ári frá fyrra ári og nam hún 669 milljónum króna sem er 129 milljónum króna verri afkoma en árið 2015. Þetta er ef miðað er við afkomuna eftir afskriftir, en hún var neikvæð um 294 milljónir króna fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITA), en árið 2015 hljóðaði tapið af rekstrinum 210 milljónum króna.

Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu segir grundvallaratriði að létta rekstrarkostnaði af fasteigninni af rekstrinum, þar á meðal kostnaði af umfangsmiklu viðhaldi í Morgunblaðinu.„Þá mætti skoða að að setja fasteignina í eitt félag og reksturinn í annað,“ segir Svanhildur sem segir að „dæmið gengur bara ekki upp" en víða erlendis segir hún menningarhús vera undanskilin gjöldum.

Svanhildur segir útilokað að húsið uppfylli bæði menningarleg og listræn markmið fyrir starfsemina sem og að reksturinn sé sjálfbær. „Þetta gengur ekki upp. Húsið hefur verið rekið með tapi í sex ár. Á sama tíma hafa tekjur aukist og umfang allrar starfsemi vaxið ár frá ári,“ segir Svanhildur sem segir að endurskoða þurfi rekstrargrundvöllin í heild.

Ekki standi þó til að fækka starfsfólki. „Það eru engar slíkar hugmyndir uppi.“

Nýting á sölum eykst um rúmlega fimmtung

Á rekstrarárinu voru haldnir 1.284 atburðir í húsinu, þar af 835 listviðburðir og hátt á fimmta hundrað ráðstefnur, fundir og veislur. Jókst nýting á sölum hússins um 22% frá fyrra ári og voru alls 259 þúsund miðar seldir í gegnum miðasölu Hörpu. Tæplega 2 milljónir heimsókna voru í húsið á árinu, og jukust tekjur af starfsemi samstæðunnar um 215 milljónir á milli ára eða sem nemur 21%, en langmestu munaði um auknar tekjur af útleigu vegna tónlistarviðburða, ráðstefna og fundarhalds.

Hækkuðu tekjurnar af þeim um 180 milljónir króna milli ára og voru þær 778 milljónir króna árið 2016, en þar af vógu tekjur af ráðstefnum þyngst, eða um fjórðungi, en listviðburðir skiluðu um 19% af þeim tekjum og loks föst leiga Sinfoníuhljómsveitar Íslands og íslensku óperunnar 14%.

Rekstrargjöld hækkuðu meira en tekjur

Hins vegar hækkuðu rekstrargjöldin meira eða um 319 milljónir króna, þar af hækkaði húsnæðiskostnaður um 88 milljónir en launakostnaður um 50 milljónir eða um 11% milli ára. Hjá samstæðu Hörpu voru 117 manns á launaskrá í 52 stöðugildum sem fjölgaði um 3 á árinu.

Mesti kostnaðaraukinn var í liðnum aðkeypt þjónusta, en hann hækkaði um 151 milljón króna, en þar vegur hæst kostnaður vegna viðburða í skammtímaleigu.