*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 21. september 2016 12:26

Sjálfboðaliðar ganga í störf launafólks

Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA segir aðila í samkeppnisrekstri auglýsa eftir sjálfboðaliðum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

„Það er spurning hversu stórt vandamál þetta er, en þetta er búið að vera dálítið í umræðunni svona síðasta árið, að það sé aukning í ákveðnum geirum í þjónustu til dæmis við erlenda ferðamenn, þar sem sjálfboðaliðar eru jafnvel farnir að starfa í móttöku í einhverjum minni gistihúsum og farnir að sinna störfum sem falla undir okkar kjarasamninga og almennt launafólk sinnir, og hefur sinnt,“ segir Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA í viðtali við Viðskiptablaðið.

Andstætt kjarasamningum

Í gær sendu samtökin ásamt Alþýðusambandi Íslands frá sér yfirlýsingu þar sem áréttað var að það sé andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja.

„Með yfirlýsingunni erum við að árétta þennan skilning áður en menn fari að leggja þann skilning í þetta að það sé eðlileg þróun vinnumarkaðar að sjálfboðaliðar fari að ganga í dagsdagleg störf launafólks.“

Fríar ferðir með ferðamannarútum

Heimildarmaður Viðskiptablaðsins sem starfar sem sjálfboðaliði í litlu gistihúsi í miðborg Reykjavíkur fær í staðinn fyrir þrjá til fjóra tíma í vinnu á dag, fæði og húsnæði, ásamt fríum ferðum með ferðamannarútum á vinsæla áfangastaði. Starfar viðkomandi við ýmis tilfallandi störf í gistihúsinu.

„Við erum að sjá í gegnum til dæmis sjálfboðaliðasíður eins og WorkAway að það eru fyrirtæki í samkeppnisgreinum sem eru að leita að sjálfboðaliðum. Þarna er komin strúkturbreyting á vinnumarkaðnum og nauðsynlegt að okkar mati að stíga inn í það til þess að fólk sé ekki í neinni villu um hvernig vinnumarkaðurinn virkar,“ segir Ragnar.

„Kjarasamningar gilda um þessi störf, þeir eru lágmarkskjarasamningar, þannig að það er í rauninni ekki löglegt að semja við einhverja einstaklinga um að þyggja ekki laun fyrir starfið. Það er bara þannig samkvæmt íslenskum lögum að kjarasamningar ákvarða lágmarkskjör í starfsgreininni.“