Sjálfkeyrandi bíll leigubílaþjónustunnar Uber keyrði á gangandi vegfaranda í Arizona í Bandaríkjunum að því er The Wall Street Journal greinir frá . Um er að ræða fyrsta dauðsfallið af völdum sjálfkeyrandi bíls sem vitað er af. Bíllinn keyrði á 49 ára konu að nafni Elaine Herzberg á sunnudagskvöldið en hún reiddi hjól sitt á götunni.

Uber ákvað í kjölfar slyssins að taka alla sjálfkeyrandi bíla fyrirtækisins úr umferð en það hefur verið að prófa þá í fjórum borgum í Bandaríkjunum. Talsmaður Uber sagði að fyrirtækið væri að rannsaka slysið og ynni með yfirvöldum að því að upplýsa hvað hafi farið úrskeiðis.

Lögreglan í Tempe, Arizona, þar sem slysið átti sér stað sagði að bíllinn hefði verið á sjálfkeyrandi stillingu en mennskur öryggisfulltrúi hefði verið í honum. Jafnframt að bíllinn hefði verið að keyra yfir hámarkshraða og hefði ekki hægt á sér í tæka tíð.