*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 3. nóvember 2004 17:11

Sjálfkjörið í bankaráð Íslandsbanka

og heimild til hlutafjáraukningar samþykkt

Ritstjórn

Bankaráð Íslandsbanka var sjálfkjörið á hluthafafundi, sem efnt var til í dag. Á fyrsta fundi nýs bankaráðs var Einar Sveinsson endurkjörinn formaður bankaráðs og Jón Snorrason varaformaður. Aðrir bankaráðsmenn eru Helgi Magnússon, Karl Wernersson, Róbert Melax, Steinunn Jónsdóttir og Úlfar Steindórsson. Varamenn í bankaráði eru Guðmundur Ásgeirsson, Hilmar Pálsson, Hrund Rudolfsdóttir, Orri Vigfússon, Steingrímur Wernersson, Sveinn Jónsson og Tómas Sigurðsson.

Jafnframt var samþykkt á hluthafafundinum að gefa bankaráði heimild til að hækka hlutafé félagsins um allt að 3 milljarða kr. að nafnvirði, en hlutafé í bankanum er núna 10,2 milljarðar að nafnvirði.

Heimildin er tvíþætt. Annarsvegar er bankaráði heimilt að hækka hlutafé félagsins um allt að 1,5 milljarð hluta, þar sem hluthafar eiga forgangsrétt til að skrá sig fyrir nýjum hlutum í félaginu í réttu hlutfalli við hlutafjáreign sína. Hinsvegar er bankaráði heimilt að hækka hlutafé félagsins um allt að 1,5 milljarð hluta án forgangsréttar hluthafa að hinum nýju hlutum.
Bankaráð skal ákvarða útboðsgengi og greiðslukjör hinna nýju hluta og í hvaða áföngum heimildin verður nýtt. Bankaráð getur sett nánari reglur um sölu hlutanna. Heimild bankaráðs til hlutafjárhækkunar samkvæmt þessari málsgrein fellur niður í árslok 2006 að því marki sem hún er þá enn ónotuð.

Unnt að mæta áhugaverðum vaxtatækifærum sem upp kunna að koma
?Markmiðið með þessari heimild er að undirbúa Íslandsbanka undir enn frekari vöxt, þannig að unnt verði að mæta áhugaverðum vaxtatækifærum sem upp kunna að koma með eflingu eiginfjárstöðu. Þannig mun ný heimild til aukningar hlutafjár veita Íslandsbanka aukið svigrúm til sóknar í ört vaxandi samkeppni hér á landi og erlendis," sagði Einar Sveinsson formaður bankaráðs í ávarpi sínu á hluthafafundinum.