Fimm einstaklingar hafa gefið kost á sér til setu í stjórn Eikar fasteignafélags, að því er kemur fram í tilkynningu. Stjórnarkjörið fer fram þann 21. maí næstkomandi á aðalfundi félagsins. Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og er því sjálfkjörið í stjórn félagsins.

Af núverandi stjórnarmönnum gefa fjórir af fimm aftur kost á sér, en Hrönn Pétursdóttir mun hverfa úr stjórninni. Í hennar stað kemur Arna Harðardóttir.

Þeir sem sitja munu í stjórninni með henni eru þau Agla Elísabet Hendriksdóttir, Eyjólfur Árni Rafnsson, Frosti Bergsson og Stefán Árni Auðólfsson, núverandi stjórnarformaður.

Á aðalfundinum mun stjórn félagsins leggja það til að greiddur verði út arður fyrir árið 2014 sem nemi 0,17 krónum á hlut. Heildarfjárhæð arðgreiðslunnar yrði því um 580 milljónir króna.