Ljóst er að sjálfkjörið verður í stjórn Origo sem kjörinn verður á aðalfundi félagsins sem verður föstudaginn 6. mars næstkomandi, en jafnmörg framboð hafa nú komið fram og sætin sem eru í boði. Frambjóðendurnir eru allir þeir sömu og hafa verið í stjórn síðasta árið, en jafnframt þeir sömu og tilnefningarnefnd Origo lagði til 14. febrúar síðastliðinn.

Í tilkynningu til kauphallarinnar kemur fram að eftirtalin fimm verða í framboði:

  • 1.    Guðmundur Jóhann Jónsson, kennitala: 041159-2439
  • 2.    Hildur Dungal, kennitala: 140571-3859
  • 3.    Hjalti Þórarinsson, kennitala: 290175-3649
  • 4.    Ívar Kristjánsson, kennitala: 011069-5099
  • 5.    Svafa Grönfeldt, kennitala: 290365-3769

Guðmundur Jóhann Jónsson tók sæti varamanns í stjórn Origo hf. (áður Nýherja) 1999 og hefur gegnt hlutverki vara- og aðalmanns frá þeim tíma til dagsins í dag.  Guðmundur, sem er forstjóri tryggingafélagsins Varðar, útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Seattle University á árinu 1985 og lauk MBA prófi frá Edinborgarháskóla á árinu 2000. Hann hefur auk setu í stjórn Nýherja setið í stjórnum nokkurra annarra fyrirtækja. Hann situr í stjórn Viðskiptaráðs Íslands.

Hildur Dungal tók sæti í aðalstjórn Origo hf. (áður Nýherja hf.) í febrúar árið 2011. Hún útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hún gegndi starfi forstjóra Útlendingastofnunar, starfaði um árabil hjá dómsmálaráðuneytinu en er nú lögfræðingur yfirstjórnar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.  Hildur hefur setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja og er varamaður í stjórn Bankasýslunnar.

Hjalti Þórarinsson tók sæti varamanns í stjórn Origo hf. (áður Nýherja) í mars 2017. Hann er framkvæmdastjóri hjá Marel og leiðir 230 starfsmanna hugbúnaðardeild. Hjalti stundaði nám í rafmagns- og tölvuverkfræði í HÍ 1995-1998 og lauk MBA námi frá MIT í Bandaríkjunum. Hjalti átti þátt í stofnun hugbúnaðarhússins Dímon árið 1998. Eftir MBA námið vann Hjalti í höfuðstöðvum Microsoft í 11 ár, og leiddi þar viðskiptaþróun fyrir gervigreind.

Ívar Kristjánsson tók sæti í stjórn Origo hf. (áður Nýherja hf.) í mars 2016 og varð stjórnarformaður í desember sama ár. Hann er framkvæmdastjóri 1939 Games, stjórnarformaður RVX og situr í stjórn Icelandic Gaming Industry (innan Samtaka iðnaðarins). Ívar stundaði nám í viðskiptafræði við HÍ og hefur lokið MBA gráðu frá HR. Hann er einn af stofnendum CCP hf. og starfaði þar í 17 ár og var framkvæmdastjóri CCP þegar EVE-Online kom út árið 2003, en var lengst af fjármálastjóri CCP.

Svafa Grönfeldt er formaður stjórnar MIT DesignX sem er nýjasti viðskiptahraðall MIT háskóla í Boston og starfar hún jafnframt við nýsköpunarsetur skólans. Hún er ein af stofnendum The MET Fund sem er fjárfestingasjóður fyrir sprotafyrirtæki á sviði hönnunar og tækni í Bandaríkjunum. Svafa hefur setið í stjórn Origo síðan 2019, stjórn Icelandair Group síðan 2019 og stjórn Össurar síðan 2008. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Alvogen í tæp 10 ár og þar áður sem rektor Háskólans Reykjavík og aðstoðarforstjóri Actavis. Hún lauk doktorsprófi frá London School of Economics í vinnumarkaðsfræðum.