Sjálfkjörið er í stjórn VÍS, en framboðsfrestur rann út á laugardaginn. Aðalfundur félagsins fer fram á fimmtudag. Sömu fimm aðilar munu sitja í stjórn VÍS á næsta ári og sitja þar núna. Þessir aðilar eru Friðrik Hallbjörn Karlsson, Guðrún Þorgeirsdóttir, Steinar Þór Guðgeirsson, Helga Jónsdóttir og Ásta Dís Óladóttir

Hér má sjá yfirlit yfir stjórnarmenn.

Friðrik Hallbjörn Karlsson.
Fæddur 1966, til heimilis að Bjarmalandi 23, 108 Reykjavík. Hallbjörn lauk B.sc. í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands 1990, M.Sc. í vélaverkfræði frá Stanford University 1993 og MBA frá INSEAD í Frakklandi 2000. Hann starfar í dag við eigin fjárfestingar en hefur einnig setið í stjórn VÍS frá 30. maí 2013. Hallbjörn á óbeint hluti í VÍS gegnum eignarhald sitt í einkahlutafélagi sem á 5,23% hlut í VÍS. Um er að ræða Hagamel ehf. Í tilkynningu segir að Hagamelur teljist ekki stór hluthafi. Hallbjörn á einnig 0,008% hlut í VÍS með beinum hætti. Hallbjörn teljist miðað við framangreint óháður.

Guðrún Þorgeirsdóttir
.Fædd 1979, til heimilis að Barðaströnd 4, 170 Seltjarnarnesi. Guðrún lauk B.Sc. í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 2003, MBA frá HEC School of Management 2005 og er löggiltur verðbréfamiðlari. Hún starfar í dag sem framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunarsviðs Skeljungs hf. en hefur einnig setið í stjórn VÍS frá 8. desember 2010. Guðrún á 0,0038% hlut í VÍS. Hún er fyrrum fjárfestingarstjóri Klakka ehf. og telst því háð Klakka ehf. sem er stærsti núverandi hluthafi VÍS. Hún er óháð VÍS.

Steinar Þór Guðgeirsson.
Fæddur 1971, til heimilis að Búagrund 7, 116 Reykjavík. Steinar lauk Cand. Jur. í lögfræði frá Háskóla Íslands 1997 og fékk héraðsdómslögmannsréttindi 1998 og hæstaréttarlögmannsréttindi 2004. Hann starfar í dag sem hæstaréttarlögmaður á lögmannsstofunni Íslög ehf. en hefur einnig setið í stjórn VÍS frá 30. maí 2013. Steinar á óbeint hluti í VÍS gegnum eignarhald sitt í einkahlutafélagi sem á 0,8% hlut í VÍS. Um er að ræða Íscap ehf. Íscap telst ekki stór hluthafi og Steinar því óháður.

Helga Jónsdóttir.
Fædd 1967, til heimilis að Smáraflöt 44, 210 Garðabæ. Helga lauk Cand. Jur. í lögfræði frá Háskóla Íslands 1992 og fékk héraðsdómslögmannsréttindi 1995. Hún rekur í dag Silfurberg sveitahótel en hefur einnig setið í stjórn VÍS frá 8. desember 2010. Helga á 0,0025% í VÍS og telst óháð.

Ásta Dís Óladóttir.
Fædd 1972, til heimilis að Viðjugerði 12, 108 Reykjavík. Ásta lauk BA prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands 1999, Msc í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands 2001 og Ph.D í alþjóðaviðskiptum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn 2010. Hún starfar í dag sem framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar ehf. en hefur einnig setið í stjórn VÍS frá 30. maí 2013. Ásta á ekki hlut í VÍS og er óháð.