Við verðum að keppa á samgöngum og svo fólk vilji vera hérna. Við verðum að horfa inn í framtíðina. Þegar Isavia ákvað einhliða að loka flugvellinum á Siglufirði var það gott dæmi um skammsýni. Þetta sagði Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði sem hefur fjárfest mikið í uppbyggingu þar í bæ.

„Þú sleppir því ekki að viðhalda þessu og segir svo að það sé of dýrt að gera völlinn upp og vilt loka honum,“ sagði Róbert og sagði þetta ekki vera gert með framtíðarsýn í huganum. „Svo þykir það sjálfsagt að vera með flottustu græjurnar á Reykjavíkurflugvelli.“

Róbert fór stuttlega yfir sögu Siglufjarðar sem atvinnusvæðis. Hann sagði marga halda að fjárfestingar sínar á svæðinu væru vegna einhverrar þjóðernishyggju en svo væri alls ekki.

„Margir halda að arðsemi skipti öllu máli en svo er ekki alltaf. Arðsemi getur farið úr skorðum ef fjárfestingin er ekki í umhverfi sem er stöðugt og þú þekkir. Eftir 10 ára búsetu í Bandaríkjunum og 20 ár í alþjóðaviðskiptum þá hefur maður lært að fyrstu sporin eða fyrstu árin í nýju umhverfi eru þau hættulegustu. Þú ferð og gerir alla þá vitleysu sem hægt er að gera. Ég ákvað því að snúa aftur heim og fara að fjárfesta í mínu gamla byggðarlagi.“