Sjálfsmyndaprik (e. selfie stick) hafa notið mikilla vinsælda undanfarin misseri og þá sérstaklega á meðal yngri kynslóðanna. Prik þessi eru notuð til að gera farsmímanotendum auðveldara að taka flottar sjálfsmyndir og hafa svo sannarlega slegið í gegn.

Sjálfsmyndaprikin virðast þó vera ljár í þúfu forráðamanna Disney skemmtigarðanna, en notkun á þeim hefur nú verið bönnuð í Disney-görðunum í Kaliforníu og Flórída.

Talskona Disney segir að ákveðin öryggisógn stafi af prikunum og að fyrirtækið sjái þann kost einan í stöðunni að banna þau í görðum sínum. Til að mynda getur verið stórhættulegt að taka slíkar sjálfsmyndir í tækjum skemmtigarðanna, en Disney hafði að vísu bannað það nú þegar. Nú hefur fyrirtækið einfaldlega tekið bannið alla leið.

Disney segist ætla að leita í bakpokum ferðamanna af sjálfsmyndaprikum og verður ekki leyfilegt að fara með þau í garðinn. Disney bætist í hóp fjölda knattspyrnufélaga sem bannað hafa prikin á leikvöngum sínum. Þá hefur Smithsonian safnið í New York einnig bannað prikin í sínum húsum líkt og fjölmörg önnur söfn.