Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir sjálfstæða peningastefnu ekki í boði, ef halda á hagkerfinu opnu með sæmilegum gengisstöðugleika. Viðskiptablaðið leitaði til fimm einstaklinga og spurði um sýn þeirra á núverandi peningastefnu og framtíðarfyrirkomulag hennar. Beðið var um skorinorð svör.

Svar Orra:

Telur þú, og þá hvernig, að endurskoða þurfi peningastefnuna innan tólf mánaða?

Einfalt verðbólgumarkmið með stýrivaxtahækkun eina að vopni hefur gengið sér til húðar. Afleiðingin er vaxtamunarviðskipti, sveiflur í krónunni og röng nýting framleiðsluþátta. Sjálfstæð peningastefna er þannig ekki í boði, ef við viljum halda hagkerfinu opnu með sæmilegum gengisstöðugleika. Næstu 12 mánuði þarf peningastefnan að styðja við endurreisn íslenska hagkerfisins og afnám gjaldeyrishafta. Grundvallaratriðið er heragi í hagstjórn, setja þarf ríkisfjármálareglu sem gengur jafnvel lengra en Maastricht skilyrðin og draga úr fastgreiðslufyrirkomulagi verðtryggingar.

Hvaða framtíðarfyrirkomulag á gjaldeyrismálum telur þú heppilegast og hvers vegna?

Fátt bendir til annars en að við verðum með íslensku krónuna hér langleiðina út þennan áratug hið minnsta. Til skamms og meðallangs tíma er lykilatriði að nýta kostina og lágmarka gallana við sérstaka mynt, það hefur t.d. Svíum tekist. Ef og þegar við tökum upp alþjóðlegan gjaldmiðil, t.d. með inngöngu í ESB eða eftir öðrum leiðum, einfaldar það erlendar fjárfestingar í landinu og gerir íslenskum alþjóðafyrirtækjum betur kleift að starfrækja umfangsmikla starfsemi á Íslandi. En þá er eins gott að við höfum lokið okkar heimavinnu, þ.e. agað opinber fjármál og stuðlað að sveigjanlegri vinnumarkaði. Utanaðkomandi gjaldmiðill getur sópað vandamálum tímabundið undir teppið sem koma fram síðar af yfirþyrmandi þunga, eins og Argentína kynntist 2001 og Grikkland nú. En Hong Kong og Eistland hafa líka sýnt að nýta má ytri gjaldmiðil einmitt til að halda skikki á fjármálastjórn og viðhalda sveigjanleika í hagkerfinu.

Nánar er fjallað um málið í úttekt í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.