„Það er óþægilegt að þessi ákvörðun komi beint í kjölfar ummæli forsætisráðherra sem ekki verða skilin öðruvísi en sem aðfinnslur gagnvart sjálfstæði seðlabankans,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, um þá ákvörðun að auglýsa starf seðlabankastjóra. Ákvörðunin var kynnt í morgun.

„Ég legg á það allt kapp að við höldum þeirri umgjörð og fagmennsku í Seðlabankanum, faglegar ráðningar og sjálfstæði seðlabanka sem við höfum komið á á undanförnum árum og við munum ekki styðja fráhvarf frá þeirri stefnu,“ segir Árni Páll.

Hann vill ekki segja til um hvort þessi ákvörðun sé vantraustsyfirlýsing við Má Guðmundsson seðlabankastjóra. Lögum samkvæmt hefði hann þó mátt gegna stöðunni í fimm ár í viðbót. „Þvi verður ríkisstjórnin að svara en þegar saman fer þessi gagnrýni forsætisráðherrans og svo þessar aðfarir þá vekur það verulegar efasemdir um getu ríkisstjórnarinnar til þess að marka okkur heillavænlega stefnu í efnahagsmálum,“ segir Árni Páll.

Árni Páll segir að Samfylkingin hafi ekki fengið boð um þátttöku í starfshópi sem fjármálaráðherra hyggst stofna til að móta framtíð seðlabankans. „Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að ríkisstjórnin ætli virkilega að endurvekja flokkspólitíska stjórn á Seðlabankanum,“ segir Árni Páll Árnason.