Sjálfstæðisflokkurinn nýtur stuðnings um 43% kjósenda samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins og yrði því mjög erfitt að mynda stjórn án flokksins yrðu niðurstöður kosninga í samræmi við könnunina. Sjálfstæðisflokkurinn fengi, samkvæmt könnuninni, 29 þingmenn. Fimm aðrir flokkar fengju þingmenn kjörna samkvæmt könnuninni, og þyrftu þeir að mynda fimm flokka stjórn ætluðu þeir sér að halda Sjálfstæðisflokknum frá stjórnarráðinu.

Stuðningur við Samstöðu, flokk Lilju M'osesdóttur hrynur í könnuninni samanborið við sambærilega könnun sem gerð var í febrúar. Þá mældist Samstaða með 21% fylgi en fengi nú um sex prósent og fjóra þingmenn kjörna.

Samfylkingin mælist með tæplega fimmtán prósenta stuðning og Vinstri grænir með tæplega níu prósent. Samanlagt fengju flokkarnir 16 þingmenn, langt frá þeim 32 sem þeir hafa í dag, eftir afföll í þingliði Vinstri grænna á kjörtímabilinu.