Sjálfstæðisflokkur fær forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og innanríkisráðuneytið sem verður á hendi tveggja ráðherra, þar sem annar fari með dómsmálin en hinn með samgöngumál, fjarskipti og sveitarstjórnarmál.

Auk þess fái flokkurinn ráðuneyti ferðamála, iðnaðar, nýsköpunar auk ráðuneytis menntamála svo vænta megi að flokkurinn verði með sex ráðherra.

Þetta kemur fram í máli þeirra Bjarna Benediktssonar, starfandi fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, Benedikt Jóhannessonar formanns Viðreisnar og Óttars Proppé, formanns Bjartrar framtíðar.

Viðreisn fær fjármálaráðuneytið, atvinnumálin og svo félagsmálahluta velferðarráðuneytisins. „Ef ég man öll ráðuneytin,“ segir Benedikt. Óttarr Proppé segir Bjarta framtíð fá heilbrigðishluta velferðarráðuneytisins ásamt umhverfisráðuneytisins.

Málefni ferðamála ekki sameinuð undir einn hatt

Aðspurður sagði Bjarni Benediktsson að ekki hefði verið ákveðið að færa málefni sem snerta ferðamál, eins og samgöngumál og umhverfismál, saman inn í eitt ráðuneyti, þó það kæmi til greina síðar.

Vísaði hann til Stjórnstöðvar ferðamála sem samráðsvettvangs fyrir mismunandi aðila í stjórnsýslunni til að sjá um þau mál.