*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 26. október 2017 09:15

Sjálfstæðisflokkur með tæplega fjórðung

Ríkisstjórnarsamstarf VG, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar hefði meirihluta án Bjartrar framtíðar sem dettur af þingi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sjálfstæðisflokkurinn er aftur orðinn stærsti flokkurinn og er hann að nálgast kjörfylgi sitt í síðustu kosningum. Viðreisn hefur rétt úr kútnum á ný og er hann orðinn stærri en Framsóknarflokkurinn. Björt framtíð, flokkurinn sem sleit ríkisstjórnarsamstarfinu, virðist hins vegar vera refsað enda er fylgið við hann rétt um 1,9%.

Samfylkingin hefur svo náð vopnum sínum aftur og mun þrefalda þingmannatölu sína og er flokkurinn nú orðinn þriðji stærsti flokkurinn. Píratar sem áður voru í þeirri stöðu eru hins vegar komnir niður í fimmta sætið á eftir Miðflokki Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem klauf sig út úr Framsóknarflokknum fljótlega eftir að boðað var til kosinga.

Flokkur fólksins sem stuttu áður en boðað var til framboðs Sigmundar var að mælast í 11% mælist nú undir lágmarksfylginu til að komast á þing, með 4,4% fylgi. Miðað við þetta er ekki möguleiki á neinni tveggja flokka stjórn, en hins vegar væri hægt að mynda  ríkisstjórn VG, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar, sem ásamt Bjartri framtíð, var í kortunum fyrir síðustu kosningar. Samanlagt hefðu þessir flokkar 37 þingmenn af 63.

Niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis sem gerð var 23. og 24. október er sem hér segir:

  • Sjálfstæðisflokkurinn er með 24,1% og fengi 17 þingmenn sem er fækkun um fjóra
  • Vinstrigræn eru með 19,2% og fengi 14, sem er fjölgun um fjóra
  • Samfylkingin er með 14,3% og fengi 10 þingmenn, en eru í dag með þrjá
  • Miðflokkurinn er með 9,6% og fengi 7 þingmenn, en má segja að sé með tvo í dag.
  • Píratar eru með 9,4% og fengju 6 þingmenn í stað 10 nú
  • Viðreisn er með 7,5% og fengji 5 þingmenn í stað 7 nú
  • Framsóknarflokkurinn er með 6,4% og myndi þingflokkur hans helmingast, úr 8 í 4 þingmenn.
  • Flokkur fólksins mælist með 4,4% og engan þingmann
  • Björt framtíð mælist með 1,9% og missir sína þrjá þingmenn