Framsóknarflokkurinn mælist áfram með mest fylgi allra flokka á Íslandi samkvæmt nýrri könnun MMR. Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 30,2%, borið saman við 29,5% í síðustu mælingu. Pírataflokkurinn bætir við sig fylgi og mælist nú 7,8%, borið saman við 3,9% í síðustu mælingu.

Sjálfstæðisflokkurinn missir áfram fylgi og mælist hann nú 21,2% borið saman við 24,4% í síðustu mælingu. Fylgi Bjartrar framtíðar dregst nokkuð saman og mælist nú 9,2% borið saman við 12,0% í síðustu mælingu. Stuðningur við önnur framboð ýmist stóð í stað eða breyttist lítillega. Samfylkingin mælist með 12,7% og stuðningur við Vinstri græn mælist 8,1%. Önnur framboð eru undir fimm prósentum en stærst þeirra er þó Lýðræðisvaktin með 3,6% fylgi.

Athuga ber þó að tölurnar eru töluvert frá þeim sem komu fram í nýlegri könnun Fréttablaðsins. Þar mældist Framsóknarflokkurinn með 40% fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn með tæp 18%.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 28,5%. Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 5. til 8. apríl og tóku 906 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára þátt í könnuninni.

Fylgi stjórnmálaflokkanna skv. MMR könnun 09.04.13
Fylgi stjórnmálaflokkanna skv. MMR könnun 09.04.13
© vb.is (vb.is)