Fylgi við Sjálfstæðisflokkinn heldur áfram að minnka og Framsóknarflokkurinn bætir enn við sig, samkvæmt nýrri könnun Gallup á fylgi flokkanna. Þeir fengju báðir nítján þingmenn, yrði gengið til kosninga nú. Kom þetta fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins .

Könnun Gallup var gerð frá síðustu mánaðamótum og lauk í gær. Samkvæmt henni er Sjálfstæðisflokkurinn nú með 26,8% fylgi, þremur prósentustigum minna en í könnun Gallup sem birtist í upphafi febrúar. Framsóknarflokkurinn heldur hins vegar áfram að bæta við sig fylgi; mælist nú með 25,5% fylgi, var með 22,1 í síðustu könnun.

Samfylkingin dalar; er með 14% fylgi, var með 15,4% síðast og fylgi við Bjarta framtíð heldur áfram að minnka; var 16,2% í síðustu könnun, er núna 13.2%. Vinstri hreyfingin Grænt framboð bætir hins vegar við sig, er með 8,9% fylgi nú, var með 7,4% síðast.

Ef þessar niðurstöður eru færðar yfir á fjölda þingmanna á landsvísu kemur í ljós að Sjálfstæðis og Framsóknarflokkur fengju jafnmarga kjörna á þing - nítján þingmenn hvor. Samfylkingin fengi tíu, Björt framtíð níu og Vinstri Hreyfingin grænt framboð sex.