Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn eru mest mesta fylgið í nýjustu fylgiskönnun MMR. Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi og er nú með 28,5%. Það hefur ekki verið minna síðan fyrir síðustu Alþingiskosningar. Á sama tíma hefur Framsóknarflokkurinn haldið áfram að bæta við sig og er hann nú með 23,8% fylgi. Á móti dregur úr fylgi við Samfylkinguna og Bjarta framtíð. Björt framtíð mælist með 15,3% fylgi en Samfylkingin með 12,8%. Önnur framboð ýmist standa í stað eða bæta við sig.

Á sama tíma mælist stuðningur við ríkisstjórnina 26,7% í fylgiskönnun MMR.

Könnunin var gerð dagana 19. til 21. febrúar 2013 og var heildarfjöldi svarenda 814 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára.

Framsókn bætir við sig

Í síðustu könnun MMR í byrjun mánaðar var Sjálfstæðisflokkurinn með 33% fylgi. Til samanburðar var hann með 37,4% fylgi í desember í fyrra. Framsóknarflokkurinn með 19,5% fylgi en var með 14,8% í byrjun árs. Björt framtíð með 17,8% í byrjun mánaðar, 16,2% þátttakenda í könnun MMR sögðust kjósa Samfylkinguna þá samanborið við 17,4% í desember í fyrra og 8,6% sögðust mundu kjósa VG.

Í byrjun mánaðar 0,9% þeirra sem tóku afstöðu í könnun MMR kjósa Dögun ef gengið yrði til kosninga, 1,8% Hægri græna, 0,7% Samstöðu og 1,4% sögðu að þau myndu kjósa aðra flokka ef gengið væri til kosninga í byrjun mánaðar.

Svona var spurt

Lagðar voru allt að þrjár spurningar fyrir svarendur um stuðning þeirra við stjórnmálaflokka. Allir voru spurðir spurningar 1: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?“. Þeir sem svöruðu „Veit ekki/óákveðin(n)“ við spurningu 1 voru því næst spurðir spurningar 2: „En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?“. Ef aftur var svarað „Veit ekki/óákveðin(n)“ þá voru þátttakendur að lokum spurðir spurningar 3: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“. Fjölda þeirra sem svaraði "einhvern hinna" í spurningu 3 var skipt milli annarra flokka en Sjáflstæðisflokksins í sama hlutfalli og fylgi þeirra var skv. spurningum 1 og 2. Samtals voru 78,5% sem gáfu upp afstöðu til flokka, aðrir kváðust óákveðnir (7,8%), myndu skila auðu (6,1%), myndu ekki kjósa (2,4%) eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (5,1%).