*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 18. janúar 2017 15:24

Sjálfstæðisflokkur og VG nánast jafnir

Fylgi við stjórnarflokkanna hefur minnkað um 7,4 prósentustig frá kosningunum. Nú munar einungis 1,8 prósentustigum á stærstu flokkunum.

Ritstjórn
Katrín Jakobsdóttir er formaður Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs
Haraldur Guðjónsson

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur minnkað nokkuð frá kosningunum í haust en hann mælist enn stærstur með 26,1% fylgi samkvæmt nýjustu könnun MMR. Í kosningunum laugardaginn 29. október í fyrra fékk hann 29,0%.

Samanlagt mælist fylgi við stjórnarflokkanna nú vera 39,3% en í kosningunum hlutu þeir samanlagt 46,7% fylgi, eða 7,4 prósentustigi meira.

Munur úr 13,1 prósentustigi niður í 1,8 stig

Vinstri grænir bæta enn við sig og mælast þeir nú með 24,3% fylgi, sem er einungis 1,8 prósentustigi frá fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Fylgi við Vinstri græna hefur aukist frá síðustu mælingu um 3,6% en henni lauk 26. desember 2016. Í kosningunum fengu þeir hins vegar 15,9% fylgi, eða 13,1 prósentustigi minna fylgi en Sjálfstæðisflokknum.

Píratar mælast með 14,6% fylgi sem er tæpum 2 prósentustigum minna fylgi en í síðustu mælingu, en í kosningunum hlutu þeir 14,5% fylgi.

Framsóknarflokkurinn bætir ögn við sig frá síðustu könnun, fer úr 10,2% í 10,9%, en í kosningunum hlaut hann 11,5% atkvæða.

Viðreisn tapar 3,6 prósentustigum

Viðreisn stendur nánast í stað milli kannanna með 6,9% sem er töluvert frá kjörfylgi flokksins sem var 10,5%, eða 3,6 prósentustig. Fylgi Bjartrar framtíðar hefur hins vegar minnkað mikið frá síðustu könnun þegar það var 9,1%, en nú er það komið niður í 6,3%, sem er tæpu prósentustigi undir kjörfylgi flokksins sem var 7,2%.

Samfylkingin mælist nú rétt yfir Bjartri framtíð með 6,4% en þeir hafa tapað fylgi frá síðustu könnun þegar þeir voru með 6,9% fylgi.

Í alþingiskosningunum munaði þó einungis rétt rúmlega 0,7% að flokkurinn hlyti engin uppbótarþingsæti, því flokkurinn naut einungis 5,7% fylgis upp úr kjörkössunum. Aðrir flokkar mældust samanlagt með 4,5% sem er rétt undir 5% viðmiðunarmarkinu ef væru sameinaðir.