Sjálfstæðisflokkurinn tapaði tæplega 127 milljónum króna í fyrra, samkvæmt úrdrætti úr ársreikningi flokksins, sem hefur verið birtur á vef Ríkisendurskoðunar. Flokkurinn tapaði tæpum átta milljónum króna árið 2012.

Tekjur flokksins námu rúmlega 244 miljónum króna, og þar af voru framlög til flokksins rúmlega 161 milljón króna. 23 milljónir komu frá lögaðilum, 19 milljónir frá sveitarfélögum og 33 milljónir frá einstaklingum, bæði framlög og félagsgjöld. Ríkisframlög til flokksins námu tæpum 85 milljónum. Árið 2012 námu tekjur flokksins 216 milljónum og framlög til hans voru þar af 155 milljónir.

Í fyrra fóru 316,7 milljónir króna í rekstur flokksins og 26,5 milljónir í rekstur fasteigna. Samtals námu gjöld flokksins því rúmum 343 milljónum króna, en rekstrargjöldin árið 2012 voru 210 milljónir.

Eigið fé flokksins nam rúmum 417 milljónum í árslok 2013 og skuldir hans rúmlega 386 milljónum.