Erlendar netverslanir með áfengi hafa rutt sér til rúms á íslenskum smásölumarkaði að undanförnu. Í dag var greint frá því að frumvarp, sem átti að jafna stöðu innlendra netverslana, muni ekki fá afgreiðslu á Alþingi fyrir þinglok. Arnar Sigurðsson, eigandi Santewines SAS, furðir sig á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi samþykkt að fresta afgreiðslu málsins og er fullviss um að frumvarpið hefði verið samþykkt af meirihluta þingmanna.

„Það hefðu í mesta lagi fimm manns kosið á móti því. Það vill enginn lenda vitlausum megin í sögunni eins og þegar Steingrímur [J. Sigfússon] var á móti bjórnum,“ segir Arnar. „Þess vegna er svo mikið atriði fyrir sérstaklega Framsóknarflokkinn og Vinstri græna að svona mál fari ekki í atkvæðagreiðslu.“

Hann finnst svolítið mikið um að þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggi fram frumvörp um frelsismál en snúi sér í kjölfarið við og geri ekki kröfu um að málin fari í atkvæðagreiðslu hjá þinginu.

„Sjálfstæðismenn tala nú oft um að Viðreisn og Samfylkingin séu eins máls flokkar, vilji bara ganga í Evrópusambandið. Er ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn að afhjúpa sig sem tveggja mála flokkur í dag, þ.e. bara landbúnaður og sjávarútvegur? Allt annað eru bara þykjustunni-mál.“

„Stóra spurningin varðandi þinglok er: Hvað fékk Sjálfstæðisflokkurinn í skiptum fyrir að slátra þessu frumvarpi? Það er ekki eins og að það þurfi að ræða þetta netverslunarfrumvarp sérstaklega – að íslenskur almenningur megi hafa valfrelsi til að kaupa vín af innlendum netverslunum jafnt sem erlendum. Það þarf ekkert að leita eftir einhverjum álitum og skoða.“

Sjá einnig: „Þetta rugl er náttúrulega bara búið“

Hvað varðar frumvarpið sjálft, sem fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram í mars, segir Arnar að það hefði verið „hænuskref í rétta átt“ og bætir við að það sé allt í lagi að taka lítil skref.

Ekki snefill af málefnalegum rökum

Í samtali við Viðskiptablaðið í dag sagðist Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra enn telja að það ríki réttaróvissa um erlendar netverslanir, sér í lagi þar sem framangreint frumvarp fór ekki í gegn. Arnar er ekki á sama máli.

„Það hefur ekki snefill af málefnalegum rökum komið fram sem vefengir lögmæti erlendra netverslunar á Íslandi. Á meðan að enginn getur bent á neina lagalega hindrun á erlendum netverslunum á Íslandi. Þá má ætla að það séu nú meiri líkur á að hún sé lögleg heldur en hitt.“

Mikilvægt á verðbólgutímum

Arnar, sem ræddi einnig nýlega við Viðskiptablaðið um mikinn verðmun hjá Sante og ÁTVR, segir að sín verslun hafi sýnt fram á að hún færi íslenskum almenningi aukinn kaupmátt. Netverslunin bjóði almennt upp á ódýrari verð sem og hefur einnig verið að fjölga vörum upp á síðkastið.

Sjá einnig: Áfengisverð 15-20% of hátt

„Frjáls viðskipti eru alltaf til hagsbóta fyrir neytendur. Hefur einhvern tímann verið meiri ástæða fyrir slíkt en einmitt núna þegar verðbólga er á uppleið?“

„Af hverju má íslenskur almenningur ekki versla sér vín þar sem hann telur að hann sé að gera bestu kaupin? Af hverju má fólk ekki bara haga sínum viðskiptum eins og það kýs best?“