Sjálfstæðisflokkurinn er enn stærsti flokkurinn á Alþingi samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, sem RÚV vísar til. Sjálfstæðisflokkurinn er með 24,4% fylgi, sem er nánast óbreytt frá síðustu könnun Gallup. Björt framtíð er næststærsti flokkurinn með 17,5% fylgi.

Samfylkingin er með 16,7 prósent fylgi, svipað og síðast. Framsóknarflokkurinn mælist með 13,4 prósent fylgi í könnun Gallup og hefur ekki mælst með minna fylgi síðan í árslok 2012. Vinstri hreyfingin grænt framboð er með 12,2 prósent fylgi - svipað og síðast og Píratar eru með 9,2 prósent fylgi, aðeins minna en í síðustu könnun. Tæplega sjö prósent segjast myndu kjósa aðra flokka en nú eiga sæti á Alþingi.

Niðurstöður um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 28. febrúar til 26. mars 2014. Heildarúrtaksstærð var 5.588 og þátttökuhlutfall var 59,2 prósent. Vikmörk eru 0,8-1,5 prósent. Einstaklingar í úrtakinu voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup.