Sjálfstæðisflokkurinn fengi 26% atkvæða og mælist stærstur samkvæmt nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Morgunblaðið dagana 23. september til 5. október.

Píratar mælast næststærstir með 20% fylgi og Vinstri hreyfingin grænt framboð með 16,5%. Viðreisn mælist með tæp 12% í könnunni og Framsóknarflokkurinn með tæp 10%.

Formaðurinn kæmist ekki á þing

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og fyrrum fjármálaráðherra, kæmist ekki inn á þing ef að þetta yrðu úrslit kosninganna. Samfylkingin mælist með 6,3% fylgi, sem er einungis helmingur þess fylgis sem að flokkurinn hlaut í síðustu Alþingiskosningum. Samfylkingin mælist því sem sjötti stærsti flokkur landsins í könnunni.

Björt framtíð kæmust ekki inn á þing samkvæmt þessum niðurstöðum, en flokkurinn mælist með 4,1% fylgi. Flokkur fólksins mælist með 3,2% og Íslenska þjóðfylkingin með 2,2% fylgi.

Tvær leiðir voru notaðar til að ná til kjósenda í könnun Félagsvísindastofnunar, alls í 1.750 manna úrtaki. Annars vegar var hringt í 750 manna tilviljunarúrtak úr þjóðskrá og hins vegar var send netkönnun til 1.000 manna úrtaks úr netpanel Félagsvísindastofnunar. Alls fengust svör frá 977 svarendum og var því svarhlutfallið 57%.

Nálægt því að vera jöfn kynjahlutföll

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, þá sætu á Alþingi 30 konur og 33 karlar. Það þýðir að hlutur kvenna yrði þá tæp 48%, sem yrði hæsta hlutfall kvenna á þingi. Þó er kynjahlutföll mjög frábrugðin milli flokka. Til að mynda þá kæmust átta konur frá Vinstri grænum og fjórir karlar á þing, en einungis fimm konur af átján manna hópi Sjálfstæðisflokksins.