Heiðar Guðjónsson, fráfarandi forstjóri Sýnar, segist hafa áhyggjur af því hvernig ríkisafskipti hafi aukist á síðustu árum á þeim sviðum sem Sýn starfar á, fjarskipta- og fjölmiðlamarkaðnum. „Ljósleiðarinn, sem er fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, er kominn í keppni um að klára að ljósleiðaravæða landið. Mér finnst það algjör tímaskekkja að gera það núna, í ljósi uppbyggingar 5G, og það á kostnað Reykvíkinga sem munu borga brúsann ef illa fer.“

Í nýlegri grein á Vísi gagnrýndi Heiðar hvernig ráðuneyti undir stjórn ráðherra Sjálfstæðisflokksins á síðustu árum hefur staðið fyrir auknum ríkisrekstri á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði. Sýn byggi á grunni fyrirtækja sem hafi mörg orðið til eftir fyrri lagabreytingar Sjálfstæðismanna í frjálsræðisátt á borð við Stöð 2, fyrstu einkarekna sjónvarpsstöðina; Bylgjuna, fyrstu einkareknu útvarpsstöðina, sem og Tal og Íslandssíma, sem voru brautryðjendur á sviði á sviði einkareksturs á fjarskiptamarkaði.

Nú sé af sem áður var. „NATO þráðurinn var afhentur opinberu félagi og einkafyrirtækin voru útilokuð frá því að bjóða í það. Sama á við um millilandsamband. Farice er með ríkiseinokun á gagnasambandi við útlönd. Þetta er hvergi svona í löndunum í kringum okkur. Þar sinna einkaaðilar þessu og á verðum sem eru allt að 1/30 af því sem býðst hér á Íslandi. Við erum því að greiða allt að þrjátíuföld gjöld út af ríkiseinokun. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér þarf hann að breyta grunnstefnu flokksins sem var mörkuð með stofnun hans árið 1929. Þetta er orðinn flokkur opinbera afskipta frekar en einstaklings- og viðskiptafrelsi.“

Viðtalið má lesa í heild í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.