Sjálfstæðisflokkurinn hefur endurgreitt um 18 milljónir króna sem flokkurinn fékk í styrki í lok árs 2006. Þetta kom fram í máli Jónmundar Guðmarssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins um nýliðna helgi.

Það er um þriðjungur þess fjármagns sem flokkurinn fékk í styrki frá FL Group og Landsbankanum á þessum tíma en alls námu styrkirnir 56 milljónum króna.

Þegar hið svokallaða styrkjamál kom fram vorið 2009 ákvað Bjarni Benediktsson, þá nýkjörinn formaður flokksins, að endurgreiða umrædda styrki á átta árum. Fram kom í máli Jónmundar að endurgreiðslur væru á áætlun og að endurgreiðslurnar færu fram með rekstrarfé flokksins.