Sjálfstæðisflokkurinn mældist með mest fylgi stjórnmálaflokka á Alþingi eða 25,0%, í nýrri könnun MMR, eða rúmlega þremur prósentustigum meira en við síðustu mælingu sem framkvæmd var í október. Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 51,7%, rúmu prósentustigi meira en við síðustu mælingu, en samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja nemur nú 42,4%.

Samfylkingin mældist næst með 16,7% fylgi, einu og hálfu prósentustigi hærra en við síðustu mælingu. Fylgi Pírata jókst um tæpt prósentustig frá síðustu mælingu og mældist nú 14,3%. Fylgi Miðflokksins minnkaði um rúmlega tvö prósentustig frá síðustu könnun og mældist nú 9,1%.

Þegar gögnin eru skoðuð aftur í tímann þá vekur athygli hve stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn sveiflast í gagnstæða átt við fylgi Miðflokksins segir í tilkynningu MMR. Frá því mælingar á stuðningi við Miðflokkinn hófust má sjá umtalsverða fylgni þarna á milli (r=0,6) og bendir hún til þess að nokkur barátta standi milli flokkanna um hilli sömu kjósendanna.

Hér má sjá niðurstöður MMR fyrir nóvembermánuð:

  • Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 25,0% og mældist 21,9% í síðustu könnun.
  • Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 16,7% og mældist 15,2% í síðustu könnun.
  • Fylgi Pírata mældist nú 14,3% og mældist 13,5% í síðustu könnun.
  • Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 9,9% og mældist 10,2% í síðustu könnun.
  • Fylgi Miðflokksins mældist nú 9,1% og mældist 11,6% í síðustu könnun.
  • Fylgi Viðreisnar mældist nú 8,4% og mældist 9,7% í síðustu könnun.
  • Fylgi Vinstri grænna mældist nú 7,5% og mældist 8,3% í síðustu könnun.
  • Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mældist nú 4,0% og mældist 4,6% í síðustu könnun.
  • Fylgi Flokks fólksins mældist nú 3,9% og mældist 3,8% í síðustu könnun.
  • Stuðningur við aðra mældist 1,1% samanlagt.