*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 25. apríl 2018 09:19

Sjálfstæðisflokkurinn með 5% forskot

Miðflokkurinn nær 2 mönnum og er meirihlutinn fallinn með 11 menn. Framsókn gæti tekið oddastöðuna af Viðreisn.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

 

Meirihlutinn í Reykjavík er áfram fallinn miðað við nýjustu skoðanakönnun Fréttablaðsins, en gæti haldið lífi með Viðreisn eða öðrum af þeim allt að 7 flokkum sem gætu komist inn í borgarstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur, með 30,2% fylgi, næstum því 5 prósentustigum meira en Samfylkingin sem mælist með 25,7%. Fengi Sjálfstæðisflokkurinn 8 menn en Samfylkingin þá 7.

Píratar eru á svipuðu róli og áður, með 10,7%, en Miðflokkurinn er orðinn jafnstór Vinstri grænum, það er báðir með 7,6%, en allir fengju þeir tvo menn kjörna af þeim 23 sætum sem verða í borgarstjórn eftir kosningar.

Viðreisn er með 7,2%, en ólíkt því sem er víða annars staðar er flokkurinn ekki í sameiginlegu framboði með Bjartri framtíð, eins og í Hafnarfirði, eða með öðrum flokkum á vinstrivængnum eins og í Garðabæ og víðar.

Framsókn nálægt seinni manni Viðreisnar

Loks er Framsóknarflokkurinn með 3,6%, sem ekki dugar til að ná inn manni, en miðað við þessar niðurstöður þarf ekki mikið til að hann nái manni af Viðreisn, sem samkvæmt niðurstöðunum er með tvo menn.

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí næstkomandi hafa verið boðuð allt að 17 framboð í borginni, og nefna samtals 7,4% aðra flokka en hér eru nefndir að ofan. Þar af er stærst boðað kvennaframboð með 1,4%.

Könnunin var gerð í gær, 24. apríl og var hringt í 1.017 manns þangað til náðist í 801 samkvæmt lagskiptu úrtaki. Svarhlutfallið var 78,8%, en alls tóku 50,8% þeirra sem náðist í afstöðu. 11,3% sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu, 16,6% sögðust óákveðin og 21,3% vildu ekki svara.

Fylgi þeirra sem tóku afstöðu skiptist þannig:

  • 30,2% og 8 borgarfulltrúar - Sjálfstæðisflokkurinn
  • 25,7% og 7 borgarfulltrúar - Samfylkingin
  • 10,7% og 2 borgarfulltrúar - Píratar
  • 7,6% og 2 borgarfulltrúar - Miðflokkurinn
  • 7,6% og 2 borgarfulltrúar - Vinstri græn
  • 7,2% og 2 borgarfulltrúar - Viðreisn
  • 3,6% og engan borgarfulltrúa - Framsókn

Hér má lesa eldri fréttir um fylgi flokkanna í borginni: