Sem áður þá mælast Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar með mest fylgi, en að þessu sinni mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 23,7% og Píratar með 20,6%.

Fylgi Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna hækkar samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup, en fylgi Sjálfstæðisflokksins og Pírata lækkar hins vegar.

Björt framtíð eina marktæka breytingin

Þar kemur fram að eina tölfræðilega marktæka breytingin milli mælinga er fylgisaukning Bjartrar framtíðar, sem bætir við sig tveimur prósentum milli kannanna, tæplega 5% sögðust ætla að kjósa flokkinn.

Tæplega 16% segjast munu kjósa vinstri græn og bæta þau því við sig tveimur prósentum milli kannanna. Fylgi annarra flokka breytist lítið. Viðreisn væri fjórði stærsti flokkurinn, ef gengið væri til kosninga í dag, með 13,4% atkvæða. Samfylkingin fengi 8,5% atkvæða samkvæmt könnuninni og Framsóknarflokkurinn 8,2%.

Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar um 2% frá síðustu mælingu og um 36% segjast styðja ríkisstjórnina.

„Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 16. til 29. september 2016. Heildarúrtaksstærð var 3.035 og þátttökuhlutfall var 59,2%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 1,1-2,2%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup“ segir í tilkynningu frá Gallup.