Sjálfstæðisflokkurinn er með 25,3% fylgi samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Vinstrihreyfingin grænt framboð (VG) mælist nú með 17,3%. Þetta eru miklar breytingar frá síðustu könnun Gallup en þá munaði mjög litlu á flokkunum. Sjálfstæðisflokkurinn mældist þá með 23,3% en Vinstri græn með 22,6%. RÚV greinir frá þessu.

Í nýju könnuninni mælist Samfylkingin með 15,5%. Einungis 1,5% skilur næstu fjóra flokka að. Miðflokkurinn mælist nú með 9,7%, Píratar 9,0%, Framsóknarflokkurinn 8,9% og Viðreisn 8,2%.

Fjórir flokkar eru undir 5%, sem er lágmark til að fá úthlutað jöfnunarmönnum. Það eru Flokkur fólksins, sem er með 4,0%, Björt framtíð, sem mælist með 1,5%, Alþýðufylkingin, sem er með 0,6% og Dögun mælist með 0,1%.

Könnunin er net- og símakönnun sem Gallup gerði dagana 23.–27. október 2017. Úrtakið í netkönnuninni var tilviljunarúrtak úr Viðhorfahópi Gallup, en úrtakið í símakönnuninni var tilviljunarúrtak úr Þjóðskrá. Heildarúrtaksstærð var 3.848 manns 18 ára eða eldri. Þátttökuhlutfall var 55,0%.