Í nýrri könnun sem MMR framkvæmdi dagana 19. til 26. október mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 21,9% og er hann stærstur flokka. Eins og oft áður þá eru Píratar næststærstir með 19,1% fylgi og Vinstri græn koma þar á eftir með 16%. Fréttatilkynningu MMR má sjá hér .

Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 10% og bæta þeir við sig frá seinustu könnun MMR, þar sem flokkurinn mældist með 9,2%. Fylgi Viðreisnar minnkar lítillega en mælist nú 9,3% samanborið við 10,2% í síðustu könnun. Björt framtíð bætir við sig í könnun MMR og mælist nú með 8,8%.

Fylgi Samfylkingarinnar er 7,6% samanborið við 9% í síðustu könnun og fylgi Flokks fólksins nam 3,4% og því bætir flokkurinn við sig 2,2 prósentustigum milli kannanna. Fylgi annarra flokka mældist undir 2%.

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 33,3% og lækkar frá seinustu könnun þegar hann mældist 34,1%.

Könnunin var framkvæmd 19. til 26. október, úrtakið voru einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR og svarfjöldi var 981 einstaklingur.