Miklar sviptingar eru í fylgi flokkanna í Reykjavík samkvæmt nýrri könnun Gallup sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum verður fjölda borgarfulltrúa fjölgað í næstu kosningum úr 15 í 23 til 31. Samkvæmt Helgu Laxdal, skrifstofustjóra borgarstjórnar, bendi flest til þess að þeir verði 23 talsins en formleg ákvörðun hafi aftur á móti ekki verið tekin.

Sjálfstæðisflokkur myndi tapa fylgi og fá 23,4% atkvæða borið saman við 25,7%, og fengi fimm fulltrúa. Flokkurinn fékk fjóra fulltrúa í síðustu kosningum.

Stefanía Óskarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands segir í samtali við Viðskiptablaðið að flokkurinn hafi ekki verið mjög áberandi og hafi að því er virðist ekki grætt mikið á því að vera í stjórnarandstöðu fram til þessa.

Vinstrigræn fengju aukið fylgi, 11% borið saman við 8,3% og myndu fá tvo fulltrúa, en flokkurinn hefur einn fulltrúa nú.

Björt framtíð fengi 8,1% fylgi, borið saman við 15,6% í seinustu kosningum og myndi fá tvo fulltrúa líkt og síðast.

Framsókn og flugvallarvinir missa talsvert fylgi og mælast nú með 4,4% borið saman við 10,7% í seinustu kosningum. Fyrir vikið fengi flokkurinn einn fulltrúa, en er með tvo fulltrúa nú.

Nánar er fjallað um könnunina í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .