Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag var samþykkt málamiðlunartaka um að kanna skuli upptöku nýs gjaldmiðils í stað íslensku krónunnar.

Efnahags- og viðskiptanefnd lagði upphaflega fram tillögu þess efnis að strax yrði hafist handa við að undirbúa upptöku myntar sem gjaldgeng væri í alþjóðaviðskiptum í stað íslensku krónunnar. Afstaðan var einföld og afdráttarlaus, að tími væri kominn til að leggja niður krónuna.

Við upphaf umræðna um tillöguna steig formaður nefndarinnar þó fram og lagði fram málamiðlunartillögu með mildara orðalagi. Hljóðaði hún svona: „Kanna skal til þrautar upptöku myntar sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum í stað íslensku krónunnar og gefa landsmönnum og fyrirtækjum frelsi til að ákveða hvaða gjaldmiðill hentar þeim best.“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, steig í pontu og sagðist styðja málamiðlunartillöguna og var hún síðan samþykkt.

Vísir greinir frá málinu og segist jafnframt hafa heimildir fyrir því að búið hafi verið að ganga frá málamiðluninni á bakvið tjöldin í gær svo ekki færi allt í háa loft á fundinum.