Bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar eru ósáttir við þá leynd sem hvílir á endurfjármögnun á erlendum lánum bæjarins við þýska Depfa-bankann sem bæjarstjórnin hefur innsiglað. Þeir segja greiðslubyrði lána verða þunga og vanda bæjarins velt fram yfir næstu kosningar.

Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í dag vilja allt til þess gera að upplýsingar um vaxtakjör og lánaskilmála verði opinberaðir. Fulltrúar Depfa-banka hafi hins vegar þrýst á um að upplýsingarnar yrðu ekki opinberaðar.

Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði hafa látið bóka eftirfarandi:

Með fyrirhuguðum samningi við skilanefnd Depfa-banka er fjárhagsvanda sveitarfélagsins velt áfram til óvissrar framtíðar og tækifæri til að ná betri niðurstöðu fer forgörðum. Greiðslubyrði sveitarfélagsins verður gríðarleg á næstu árum og aðrir skilmálar í samningnum binda hendur bæjarins til vaxtar og þróunar á komandi árum. Augljóst er að meirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna er að fresta því að taka á fjárhagsvandanum fram yfir næstu kosningar og reyna þannig að bjarga pólitísku lífi sínu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn hafa ítrekað bent á að taka þurfi heildstætt á fjárhagsvandanum og fara í fjárhagslega endurskipulagningu á öllum skuldbindingum sveitarfélagsins með heildarhagsmuni bæjarbúa í huga til framtíðar. Slík áætlun verður að taka mið af greiðsluþoli sveitarfélagsins í samræmi við lögboðnar skyldur þess. Samningurinn sem nú liggur fyrir er óásættanleg niðurstaða fyrir Hafnfirðinga.

Þá er það óviðunandi og ólýðræðislegt að svo mikill trúnaður ríki um kjör og önnur ákvæði samningsins að bæjarbúar verði ekki upplýstir um innihald hans og að afgreiðsla samningsins hafi farið fram fyrir luktum dyrum. Þess vegna greiddu Sjálfstæðismenn atkvæði á móti samningnum.

Þennan mikla fjárhagsvanda sem bæjarfélagið glímir við má fyrst og fremst rekja til framkvæmdagleði og óráðsíu meirihluta Samfylkingarinnar síðastliðinn áratug, nú með stuðningi bæjarfulltrúa Vinstri Grænna.