Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd Alþingis, þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kristján Þór Júlíusson og Ásbjörn Óttarsson, segja að það þjóni hagsmunum þjóðarinnar best að ljúka Icesave málinu á grundvelli þeirra samningsdraga sem nú liggja fyrir.

Þannig leggja þau til að gengið verði að þeim samningum sem nýlega voru lagðir fram.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum sem send var flokksmönnum fyrir stundu.

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd Alþingis hafa lagt fram nefndarálit sitt vegna Icesave-frumvarpsins. Meginniðurstaða þeirra er að leggja til að frumvarpið verði samþykkt,“ segir í upphafi tilkynningarinnar.

Tilkynningin er hér birt hér óbreytt:

„Frá upphafi hefur ríkisstjórnin unnið að málinu af miklu ábyrgðarleysi og í ósamræmi við þau viðmið sem Alþingi lagði til grundvallar á haustdögum 2008. Tvívegis hafa samningar, sem ríkisstjórnin gerði,  verið lagðir fyrir Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagst gegn þessum samningum af miklum þunga. Fyrri samningnum var í raun hafnað á Alþingi sumarið 2009 með gerð fyrirvara sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins unnu að. Ríkisstjórnin hóf að því búnu nýjar viðræður við Hollendinga og Breta.  Þeir samningar sem lagðir voru fyrir Alþingi í kjölfarið, á haustþingi 2009, voru lögfestir – aftur gegn hörðum mótmælum þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Eindregin andstaða almennings og stjórnarandstöðunnar á Alþingi, afdráttarlaus gagnrýni Indefence-hópsins og undirskriftasöfnun gegn samningunum, leiddi til þess að forseti Íslands synjaði lögunum staðfestingar. Í þjóðaratkvæðagreiðslu hafnaði þjóðin svo samningunum með um 98% greiddra atkvæða.

Þannig var orðið ljóst að ríkisstjórnin réð ekki lengur við að leysa þetta viðfangsefni, sem þó hlaut að hvíla á hennar herðum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá upphafi lagt á það áherslu að leitað yrði pólitískrar lausnar á þessu deilumáli. Í því fólst að því aðeins yrði gengið til samninga að þeir væru að viðunandi fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Með það í huga stóð flokkurinn að viðræðum nýrrar viðræðunefndar, þar sem stjórnarandstaðan á Alþingi átti fulltrúa. Krafan var að tekist yrði á við málið með nýjum hætti.

Miðað við þær forsendur sem við höfum nú, er ljóst að samningsniðurstaðan í Icesave-málinu er allt önnur og mun hagstæðari en sú sem ríkisstjórnin gerði að lögum í árslok 2009. Sú samningsskuldbinding sem þá lá á borðinu nam tæpum 500 milljörðum króna. Nú er álitið að samningsskuldbindingin geti numið innan við 1/10 af þeirri upphæð, eða um 47 milljörðum króna. Verði þróunin á eignasafni Landsbankans áfram hagstæð, eins og verið hefur undanfarið ár, mun þessi fjárhæð lækka enn frekar.

Mun lægri vextir og vaxtaleysistímabil leiða til þess að ríkin deila með sér þeim kostnaði sem Ísland átti eitt að bera samkvæmt fyrri samningum.  Viðsemjendur okkar hafa fallið frá vaxtakröfum sem nema hátt í 200 milljörðum.   Ennfremur er óvissa mun minni vegna haldbetri upplýsinga frá skilanefnd um líklegt endurheimtuhlutfall. Þá er þessi samningur að formi til allt annar en sá sem stjórnarliðar gerðu að lögum rétt fyrir þarsíðustu áramót og þjóðin hafnaði. Fyrri samningar voru hefðbundnir lánasamningar þar sem íslenska ríkið axlaði alla ábyrgð, en nýju samningarnir eru endurgreiðslu- og skaðleysissamningar.

Það hefur alltaf legið fyrir að með samningum um þetta mál muni Ísland þurfa að taka á sig ákveðnar skuldbindingar og áhættu. Spurningin hefur snúist um það hvað viðsemjendur okkar væri tilbúnir að leggja af mörkum af sinni hálfu og hvernig takmarka mætti áhættuna og vega hana á móti því að aðhafast ekkert. Það er ljóst að  báðar leiðirnar, samningaleið eða dómstólaleið,  fela í sér áhættu. Það er mat fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, að þó að áhættan á því að við töpum dómsmálum sé til staðar, sé hún ekki veruleg.  Í því sambandi verður þó að hafa í huga að skuldbindingar okkar gætu margfaldast, tapaðist málið, þegar borið er saman við fyrirliggjandi samninga.

Að þessu samanlögðu er það mat fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd að það þjóni hagsmunum þjóðarinnar best að ljúka þessu máli á grundvelli þeirra samningsdraga sem nú liggja fyrir.“