„Ég er enginn talsmaður þess að halda einhverju leyndu sem tengist almannahagsmunum en þetta er vandrataður vegur þegar starfsemin er komin í samkeppnisform,“ segir Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við Fréttablaðið í morgun.

Sjálfstæðismenn í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur vilja fjölga mælum vegna mengunar frá orkuverum fyrirtækisins og telja eðlilegt að framleiðslutölur verði gerðar opinberar. Segjast þeir jafnframt gera alvarlegar athugasemdir við að enn hafi ekki verið afgreiddar tillögur þeirra um málið, og telja að upplýsingarnar eigi að vera almenningi tiltækar eins og upplýsingar um rekstur annarra fyrirtækja í almannaeigu.

Haraldur Flosi er ósammála þessu. „Það sem þarf að gera er að finna leiðir til að tryggja að magn þessara efna séu undir ákveðnum lágmörkum. Við höfum frest til að fullkanna þá aðferð að dæla þessum efnum niður í jörðina og höfum fengið góðar vísbendingar um að það sé raunhæft. Samhliða á að reisa sérstaklega hannaðan háf sem, þegar á þarf að halda, blæs lofttegundunum upp fyrir veðurkerfin sem færa þessi efni inn í borgina.“